149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

um fundarstjórn.

[16:28]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég kem upp í fundarstjórn forseta vegna þess að forsætisnefnd ákvað á fundi sínum í dag að rannsókn á aksturskostnaði ásamt skýringum hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar leiði í ljós að hann hafi ekki brotið gegn siðareglum alþingismanna. Á sama fundi var ítrekuðum tillögum hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar um að vísa málinu til siðanefndar, um að siðanefnd yrði til ráðgjafar um þetta mál, um óhlutdræga málsmeðferð, hafnað. Sömuleiðis var ósk hans um að málið yrði sent, þ.e. skýrsla um málsmeðferðina, til GRECO einnig hafnað.

Á sama fundi voru hafðar uppi hótanir um að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, sem lagði fram rökstudda tillögu um að akstursgreiðslur til hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar yrðu skoðaðar, hvort um brot á siðareglum væri að ræða, yrði látinn sæta afleiðingum vegna þess, þ.e. að hann yrði sjálfur skoðaður fyrir það hvort slík ábending væri brot á siðareglum.

Ég vil að það komi fram í þessum ræðustól að það að láta flutningsmann rökstuddrar tillögur sæta afleiðingum fyrir hana (Forseti hringir.) er brot á siðareglunum sjálfum. Það er ólíðandi og það er ótrúlegt að þetta hafi komið fram í forsætisnefnd Alþingis.