149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins til að ítreka það: Ef við frestum gjaldtökunni núna, bíðum alla vega með þá þætti sem lúta að gjaldheimildunum fram á næsta ár og reynum að ná samkomulagi um tímabundnu samningana og uppbyggingarsjóð, þá erum við að tala um 5 milljarða. Ég hélt að þetta væru 4 milljarðar en hv. formaður atvinnuveganefndar sagði í ræðu sinni að það væru 12 milljarðar á næsta ári sem veiðigjöldin eru, en þau verða núna samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar 7 milljarðar. Þarna er 5 milljarða mismunur.

Það sem við erum að undirstrika er að með því að setja þetta í 20 ára samninga eða 25 ára, það gætu líka verið 4% eins og við í Viðreisn höfum talað um, er ekki verið að hreyfa við á hverju ári nema þessum 5%. Það er ákveðinn fyrirsjáanleiki fyrir útgerðina í því.

Miðað við núverandi ástand erum við að tala um að því yrði öllu endurúthlutað til þeirra veiðiréttarhafa sem eru núna, til þeirra sem eru með veiðiheimildir. Það má gagnrýna okkur fyrir að breyta ekki neinu öðru í frumvarpinu en það er svo mikið stórmál og mikið lykilmál að festa í gildi tímabundna samninga að við fórnum þarna í rauninni minni hagsmunum fyrir meiri. Þetta fer þannig til sömu útgerða. Það er engin breyting. Þessi ríkisstjórn getur sagt: Þetta verður bara (Forseti hringir.) eins og þetta er áfram, sjálfkrafa endurnýjun á samningunum til hvers árs um 5% en engin(Forseti hringir.) önnur breyting að öðru leyti. Ég vona að það útskýri betur hvernig þetta er hugsað.