149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:14]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru þær tekjur sem eru umfram það sem þið gerið ráð fyrir að þetta verði, þessir 7 milljarðar. Það getur vel verið, hv. þingmaður, að ég hafi komist klaufalega orði með að segja þau verst reknu. Kannski hefði ég átt að segja þau sem búa við verstu rekstrarskilyrðin. Það er alveg hárrétt og ég bið þá viðkomandi útgerðir afsökunar á því. Það sem ég er einfaldlega að meina er að það er algjörlega galið að miða við það. Það er hins vegar algjörlega sjálfstætt vandamál sem þarf að taka á. Það gerum við einfaldlega með því að stilla gjaldtökunni þannig að þeir sem eru að labba burt á hverju ári með marga milljarða leggi meira í samneysluna og þaðan renni peningar, bæði til aðgerða fyrir verr stæðu útgerðirnar en einnig til byggðarlaganna sem eiga líka að hafa möguleika á því að byggja til framtíðar hugsanlega á öðrum atvinnuvegi en bara útgerð. Íslenska sjávarþorpið er ekki svo gamalt fyrirbrigði að það sé í sjálfu sér bundið um alla eilífð í nákvæmlega sama farinu.

Komandi austur og vestur sér maður að sjávarbyggðir sem hafa barist í bökkum og verið í vandræðum og verið frekar leiðinlegar á að líta fyrir einhæfni hafa blómstrað á síðustu árum, m.a. með tilkomu ferðaþjónustunnar, með tilkomu ungs fólks sem hefur haslað sér völl í menningu og listum og skapað litríkara og skemmtilegra samfélag.

Ég held að það sé miklu betra að bæjarstjórnirnar, sveitarstjórnirnar, landshlutasamtökin sjálf, geti aðeins haft úr meiru að moða þannig að þær geti þróað þá byggð sem þær telja að sé vænlegra til framtíðar, sem byggir líka á fjölbreyttara umhverfi, þannig að við lendum ekki í stórkostlegri kreppu þegar einn útgerðarmaður vaknar svartsýnn eða jafnvel í vondu skapi.