149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:45]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseta er kunnugt um að forsætisráðherra vissi af því að áhugi væri á að eiga orðastað við hana, að hún kæmi hingað til umræðunnar. En forsætisráðherra hefur bæði í dag og næstu daga ákaflega þétta dagskrá út af nefndri kvennaráðstefnu. Hér eru allmargir erlendir þjóðhöfðingjar og tignir gestir sem hún er að sinna. Það yrði þá held ég að koma því þannig við að hún fengi tiltekinn tíma til að geta komið og svarað spurningum. Ég held að við getum ekki ætlast til þess við þessar aðstæður að forsætisráðherra sé hér, sem er ekki ráðherra málaflokksins og er ekki með þetta mál heldur er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til staðar í umræðunni og formaður atvinnuveganefndar sem var með málið á sínu forræði í nefnd, þannig að það er langtsótt krafa að ætlast til þess að forsætisráðherra sé hér við alla umræðuna. En hana skortir ekki vilja til þess, eins og ég hygg að hún hafi almennt sýnt í störfum sínum að gera hvað hún getur til þess að vera við þingstörf hér ef óskað er eftir nærveru hennar. En ég veit þetta eftir samtal við forsætisráðherra undir kvöld, að hún er með mjög þétta dagskrá í dag og á morgun. En hún veit af því að áhugi er á að ræða við hana. Ég tel sem forseti að þar sem ekki er um fagráðherra og ráðherra málaflokksins að ræða þurfi það að vera vel rökstudd ef ætlast á til þess að forsætisráðherra sitji þessa umræðu.