149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér reiknast til að tveir hv. stjórnarþingmenn hafi tekið til máls í þessum umræðum. Þó var mælendaskráin talsvert lengri í dag þegar óskað var eftir lengri þingfundi til að gera rúm fyrir þessa umræðu. Við því var orðið án athugasemda vegna þess að við í stjórnarandstöðunni hlökkuðum einmitt til að eiga í samskiptum við hv. þingmenn stjórnarinnar um breytingartillögur þeirra. Nógu hafa þeir verið duglegir við að skora okkur á hólm hvað varðar okkar breytingartillögur og kannski kominn tími á að ræða þeirra eigin. En þess í stað eigum við ein að manna þennan kvöldfund sem stjórnin fór fram á. Þetta þykja mér mjög sorgleg vinnubrögð, herra forseti, og ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna hv. þingmenn hafa ekki áhuga á að ræða við okkur um veiðigjöld. Þeir hafa mjög mikinn áhuga á breytingartillögunum okkar en mér þykir leitt að sjá að þeir hafa ekki áhuga á að (Forseti hringir.) ræða við okkur um sínar breytingartillögur og sitt frumvarp í þessum sal. Mér þykir það mjög leitt.