149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get glatt hv. þingmann með því að það standi til að setja 4 milljarða í að mæta öryrkjum, þar á meðal að vinna í kerfisbreytingum vegna krónu á móti krónu skerðingar.

Hv. þingmaður vitnaði oft í mig í þessari ræðu og ég vil þakka hv. þingmanni fyrir það. Vitnað var í ræðu mína frá árinu 2013 þar sem ég gagnrýndi þær kerfisbreytingar á veiðigjöldunum sem komu þá fram frá nýrri ríkisstjórn. Við sem vorum við stjórnvölinn 2009–2013 settum á veiðigjöldin. Þá var unnið að því að reyna að afkomutengja veiðigjöldin sem best. Við Vinstri græn höfum alltaf talað fyrir réttlátum veiðigjöldum og að þau væru afkomutengd. Það var akkúrat þá sem var reynt að fá ríkisskattstjóra inn í þessa breytu. Það er fyrst núna sem er hægt að gera þetta með þeim hætti að hægt sé að treysta því að veiðigjöldin séu afkomutengd.

Mig langar að heyra frá hv. þingmanni um breytingartillögur þær sem liggja fyrir frá Pírötum, Viðreisn og Samfylkingu, hvort lagt hafi verið eitthvert mat á það hvaða áhrif þær munu hafa, með sínum uppboðsmarkaðsendurúthlutun eða hvað menn vilja kalla það, það er ekki mjög skiljanlegt, á mismunandi útgerðarflokka, litlar og meðalstórar útgerðir sem núna berjast í bökkum og myndu ekki þola að veiðigjaldið færi upp í 12,5 milljarða með óbreyttum veiðigjöldum. Allar þessar tillögur sem liggja fyrir um breytingar — hvaða mat hefur verið gert á þeim? Og líka gagnvart launum sjómanna, ef þessi uppboðsleið yrði farin? (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Það hefur komið fram að með uppboðsleið í Færeyjum hafi laun sjómanna verið dregin frá.