149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:07]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég þakka hv. þingmanni. Ég held að við séum reyndar nokkuð sammála um margt. Við erum greinar af sama meiði og sækjum stefnuna svona til hjartans.

Ég held að mjög mikilvægt sé varðandi sjávarútveginn að hann verði það öflugur að hann geti haldið áfram að búa til ný störf í staðinn fyrir þau störf sem fækkar þegar skipin eru orðin sjálfvirkari. Það fækkar í áhöfnum, fiskvinnslufólki fækkar í stöðvunum vegna þess að sjálfvirknin er orðin svo mikil í vélunum sem við Íslendingar framleiðum.

Þegar ég byrjaði í fiski fyrir margt löngu voru útlendar vélar og græjur. Nú er þetta allt íslenskt og svakalega flott. Það þekkir þú. Og eins og fyrirtækin í Grindavík eru að gera, að stofna Haustak og framleiða allar þessar vörur til að búa til ný störf, hátæknistörf, fyrir fólkið, fyrir unga fólkið í Grindavík til að komast út á vinnumarkaðinn og fá vinnu heima.

Við gerum það ekki með því að takmarka aðgengi þeirra að sjávarhítinni með því að gera leigusamninga.

Ég segi: Vinnum saman að því að skapa umhverfi fyrir veiðarnar, fyrir fyrirtækin í landinu svo þau geti borgað hærri laun. Það er eitt af því sem við erum alltaf að tala um, að velferðin í landinu mun ekki byggjast á sköttunum. Hún mun byggjast á því sem atvinnulífið getur skaffað inn í landið. Ég held að það sé mikilvægast, að skapa verðmæt störf. Það erum við í þessum sal sem þurfum að búa til það umhverfi að það verði að veruleika. Það er „the bottom line“ segi ég, og fyrirgefðu, virðulegur forseti, að ég skuli sletta svona í lokin.