149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:32]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég get eiginlega ekki orða bundist. Mér finnst það orðið svo magnað að hlusta á hægri menn tala um sjávarútveg og hvað hann eigi í raun og veru afskaplega bágt, að hann þurfi stuðning stjórnmálamanna sýknt og heilagt við til að geta staðið á eigin fótum.

Það er alveg rétt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns að það er margt alveg frábært í sjávarútvegi og greinin hefur þróast af eigin burðum í gegnum árin og áratugina. Það er kannski ágætt að hafa það í huga að á sama tíma og veiðigjöld voru hér innleidd í fyrsta skipti fyrir alvöru upp úr 2010 og hækkuðu verulega fór það saman við eitt mesta fjárfestingarskeið sem sjávarútvegurinn hefur farið í í gegnum alla tíðina.

Ég skil eiginlega ekki þegar maður hlustar á Sjálfstæðismenn tala um að hér þurfi hönd ríkisvaldsins að vera alltumlykjandi til að stýra því hvernig greinin þróist og hvar hún vaxi og dafni. Hún hefur nefnilega þróast fyrst og fremst upp á eigin spýtur. Það er kannski helsti kosturinn. En hér er alltaf slegið í og úr um að hér verði statt og stöðugt að fylgjast með hvaða fyrirtæki séu að vaxa og dafna, hvaða fyrirtæki séu mögulega að bera lítið úr býtum þetta árið eða guð veit hvað.

Ef við eyddum í þessum sal öllum þeim tíma sem Sjálfstæðismenn eyða í að ræða landbúnað og sjávarútveg í að ræða allar aðrar atvinnugreinar landsins værum við sennilega ekki að gera neitt annað hér í þingsal en að ræða einstakar atvinnugreinar.

Þegar kemur að landbúnaði og sjávarútvegi er Sjálfstæðisflokkurinn ekki markaðsflokkur. Hann er einhvers konar ráðstjórnarflokkur, eiginlega bara sósíalistaflokkur. Hann hefur enga trú á frjálsum markaði (Forseti hringir.) þegar kemur að þessum tveimur atvinnugreinum. Ég hef enga spurningu fyrir hv. þingmann. Mér finnst bara svo mögnuð þessi afstaða sem kemur svo skýrt fram í máli hans.