149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um veiðigjöld. Veiðigjöld hafa verið lengi í umræðunni og lengi hefur verið unnið að því að reyna að afkomutengja þau sem best í rauntíma. Nú hefur verið lagt upp með að byggja á upplýsingum um aflaverðmæti hverrar tegundar frá Fiskistofu og úr skattframtölum frá útgerðaraðilum hjá ríkisskattstjóra. Álagning veiðigjalda hverju sinni byggist á þeim upplýsingum sem koma fram frá skattstjóra og er sem næst rauntíma hverju sinni og afkomutengd sem best.

Ég tel að við séum á mjög góðum stað. Það er búið að vera að vinna að því alveg frá árinu 2012 að reyna að nálgast þessa aðferðafræði. Ég tel að við getum bara verið mjög sátt við það sem þjóð að innheimta auðlindarentu af útgerðinni með þeim hætti sem þessi aðferðafræði og reikniformúla býður upp á, svo að ég styð það heils hugar að þetta verði samþykkt.