149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Una María Óskarsdóttir (M):

Herra þingforseti. Ágæti þingheimur. Mig langar að ræða við ykkur um líðan í vinnu, um heilsueflandi samfélag. Talið er að fólk eyði um þriðjungi lífs síns í vinnunni. Það er langur tími og það skiptir miklu að fólki líði vel í vinnunni sem og annars staðar. Það er ábyrgð vinnuveitenda, starfsmannanna sjálfra og samfélagsins alls að svo verði.

Kona nokkur var mætt á nýjan, stóran vinnustað. Hún lét fremur lítið fyrir sér fara og örfáir starfsmenn heilsuðu henni. Það gladdi hana, en aðrir virtu hana varla viðlits. Hún varð hissa. Konan hitti samstarfskonu sem hún þekkti en hafði ekki séð lengi. Sú kona sneri sér undan og sagði fátt. Kannski mátti hún ekki láta sjá sig á tali við þessa konu, alveg eins og deildarstjórinn hefði gefið út einhverja línu um það. Ekki skal ég segja.

Þetta dæmi sýnir að vinnustaður þessara kvenna þarf á lýðheilsustefnu að halda. Það er þannig að góður vinnustaður og góð líðan starfsmanna getur haft margvíslegan ávinning, svo sem færri fjarvistir frá vinnu, meiri framleiðni og betri vinnuafköst. Góð vinnustaðamenning bætir ímynd og menningu innan fyrirtækja. Það er óumdeilt að aðstæður á vinnustað hafa áhrif á heilsuna og heilsa starfsmanna hefur áhrif á það hvernig þeir skila störfum sínum.

Vinnueftirlitið hefur um langt skeið unnið að heilsuvernd á vinnustöðum, og geðheilbrigði og vellíðan í vinnu er starfsmönnum ekki síður mikilvægt en aðrir öryggisþættir. Embætti landlæknis vinnur að fjölgun heilsueflandi samfélaga og allir vinnustaðir ættu að vera heilsueflandi samfélög. Eftir því sem ég best veit hafa fáir vinnustaðir hér á landi mótað sér slíka stefnu. Ég vil því hvetja hið háa Alþingi til að móta sér lýðheilsustefnu og sýna gott fordæmi sem stuðlað geti að góðri líðan bæði þingmanna og starfsfólks þingsins.