149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

útflutningur hrossa.

179. mál
[15:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna, ekki síst það sem hann vekur athygli á, að vissulega erum við núna með eitt mál í þinginu sem allt er eðlilega í loft upp með, galið mál, veiðigjöldin, en það er u.þ.b. það eina sem við erum algjörlega á öndverðum meiði með, meira að segja ég og hv. þingmaður, við erum ekki á sömu skoðun þar. Ég og aðrir í nefndinni erum það ekki heldur og ég sé hér formanninn gleiðbrosandi úti í sal. Síðan eru önnur mál sem við erum meira sammála um. Áfram var fjallað um þau og þau eru stór sem lítil. Fyrir fram gefur maður sér að þau séu kannski ekki mikil umfangs. Svo breytist það við umfjöllun nefndarinnar og margt kemur í ljós. Við fjölluðum um dýralækna áðan og ég er sammála þeirri breytingu sem þar er lögð fram. Við erum búin að ræða um flutningsjöfnun sem vissulega hefði mátt endurskoða. Ég held að sú breyting sem er núna sé skynsamleg en fer ekki ofan af því að það mál hefði kannski átt að endurskoða til lengri tíma en breytingin er engu að síður rétt á þessu stigi.

Síðan kemur að þessu frumvarpi um breytingu á lögum um útflutning hrossa. Ég er mikil talskona fyrir hrossaræktendur og styð þá eindregið og útflutning hrossa ekki síst. Hann hefur verið stigskiptur eftir árum, verið nokkuð stöðugur síðustu ár, farið líka niður frá því sem mest lét. Eftir að við byrjuðum að leyfa útflutning á stóðhestum minnkaði eðlilega aðeins eftirspurnin hérna heima en úti byrjuðu erlendir ræktendur, sem eru stórir og miklir, hvort sem þeir eru í Þýskalandi, Svíþjóð, Danmörku, Bandaríkjunum líka en aðallega í Evrópu, að koma sér upp sinni eigin ræktun. Eftir sem áður er blessunarlega mikil eftirspurn eftir okkar kyni hér heima og okkar ræktun, enda er alveg gríðarleg framþróun í hrossaræktinni og hefur verið á umliðnum 15–20 árum. Náttúrlega sjá allir sem sækja búin og landsmótin heim að þar getum við verið verulega stolt.

Síðan kemur að útflutningi hrossa. Ég vil draga það fram að ég er eindregin stuðningskona þess að efla rannsóknir um hrossarækt. Ég held að það sé mikilvægt af því að við erum með einstæðan stofn sem kom m.a. fram hjá þeim gestum sem komu til okkar í nefndinni. Það er gríðarlega mikilvægt að það verði svigrúm og tækifæri til þess áfram.

Að því sögðu kom líka fram í nefndinni að þetta felur í sér skattahækkun. Hún er ekki mikil, það er verið að fara úr 1.500 kr. í 3.500 kr., en mér finnst þetta ekki heppilegur tímapunktur. Þó að fjárhæðin sé ekki há finnst mér hækkunin ekki rétt á þessu stigi, sérstaklega af því að málið er umdeilt. Á sínum tíma var eðlilega og auðveldlega hægt að rökstyðja að þessi sjóður ætti rétt á sér, herra forseti. Það var mjög eðlilegt að skilja það en síðan breytist stjórnsýslan. Lög breytast, m.a. eru komin lög um opinber fjármál. Ýmislegt hefur breyst á þessu sviði og m.a. er ekki sá mikli einhugur sem í rauninni hefur oft verið um þetta lengur á meðal hrossabænda, sérstaklega útflytjenda. Þess vegna finnst mér rétt að staldra við á þessu stigi. Það er rétt að gjaldið fer ekki lengur beint til Bændasamtaka Íslands heldur kemur við í ríkissjóði og fer síðan beint aftur til Bændasamtakanna. Er það rétt? Stenst þetta lög um opinber fjármál eða er það einfaldlega vegna þess hvaða aðilar eiga í hlut sem þetta má fara svona? Ég hef miklar efasemdir um þetta.

Ég velti líka öðru fyrir mér. Iðnaðarmálagjald minnir mig að hafi verið lagt niður fyrir rúmlega tíu árum. Af hverju sér ekki greinin einfaldlega um þetta sjálf, af hverju koma hrossabændur sér ekki saman um að taka sjálfir gjöld hjá sér, koma sér upp einhverju fyrirkomulagi án þess að nota milliliðinn ríkisvaldið, milliliðinn stjórnvöld?

Þetta eru þær ábendingar sem ég vil koma á framfæri. Af hverju gera þeir þetta ekki sjálfir og eyrnamerkja í rannsóknir líka? Bændasamtökin geta þá að sjálfsögðu komið að því líka.

Ég er stuðningskona þess að halda áfram rannsóknum og fleira en mér fannst koma það alvarlegar athugasemdir fyrir nefndina sem segir okkur að við eigum að staldra við. Við eigum ekki að fara með þetta mál áfram. Ég held líka að hrossaræktendur og Bændasamtökin myndu gera vel með að skoða hvort allar þær styrkbeiðnir sem fóru til sjóðsins eigi í dag rétt á sér af því að ég vil miklu heldur sjá þetta beinast að rannsóknum, ekki endilega bókaútgáfu. Ég held að þetta sé prinsippumræða sem hvaða atvinnugrein sem á í hlut hafi gott af að kjarna sig aðeins í og ræða hvaða leiðir eru bestar til að styrkja rannsóknir og ýmislegt annað tengt þeirra grein, í þessu tilfelli hrossaræktinni.

Ég er ekki á þessu máli og er því frekar andsnúin. Ég hefði viljað sjá þetta stoppað og hvatt til samtals á meðal hrossabænda, hvort ekki sé til önnur, nútímalegri og gegnsærri leið án þess að ríkisvaldið sé notað til að hækka skatt á hrossaútflutninginn.

Þó að fjárhæðirnar séu ekki of háar er hækkunin engu að síður hlutfallslega mikil. Það er verið að fara úr 1.500 kr. í 3.500 kr. sem er hlutfallslega nokkuð mikil breyting. Þó að gjaldið hafi ekki hækkað í áraraðir gefur það einmitt tilefni til að staldra við, hlusta á gagnrýnisraddir innan greinarinnar og spyrja hvort ekki sé hægt að heimfæra svona undir nútímalegri löggjöf eins og lög um opinber fjármál.