149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

útflutningur hrossa.

179. mál
[15:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Algerlega hárrétt. Ég ætla ekki að draga dul á að samtökin sjálf hafa beðið og kallað eftir þessari hækkun. Það er líka bullandi ágreiningur, eins og kom fram á fundi nefndarinnar með það. Það eru stórir og miklir hrossaútflytjendur líka sem eru ósáttir við þetta. En hvað sem því líður og það er alveg hárrétt, ég tek undir með hv. þingmanni varðandi almenna samfélagslega ábyrgð að ef sköttum er varið skynsamlega í grunnþarfirnar og menntakerfi, velferðarkerfi o.s.frv., þá á enginn að skammast sín að greiða skatta. Ég held að við séum alveg sammála almennt um það.

Hitt er síðan ljóst að það hefur viðgengist áður að aðrar atvinnugreinar hafa notað ríkissjóð og stjórnvaldsleiðina til þess að innkalla eða innheimta gjöld. Ég set spurningarmerki við það. Er það rétta leiðin í dag í nútímastjórnsýslu, að við séum að innheimta þau gjöld fyrir atvinnugrein með þessum hætti? Eins og kom fram á fundi, m.a. hjá ákveðnum gestum hjá okkur, er horft á þetta sem skattahækkun. Það er hægt að segja: Það eru nú útlendingarnir sem borga. Spurning líka um slíkt viðhorf.

Eftir stendur að þetta eru aukaálögur á þá sem flytja út hross. Þetta er viðbótarhindrun fyrir þá, hvað sem menn segja, til að selja sína frábæru vöru. Ég kalla því eftir því og hefði viljað fá svör við því hvort þetta sé í lagi og í samræmi við lög um opinber fjármál og því líka að mér finnst það vera gamaldags að ríkisvaldið sé millifærsluaðili fyrir hagsmunasamtök atvinnurekenda í þessu. Þess vegna hef ég mínar efasemdir og þær eru bara nokkuð verulegar hvað þetta varðar.