149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

útflutningur hrossa.

179. mál
[15:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði frekar viljað, nákvæmlega út af þessu, í stað þess að fara núna í þessa breytingu, taka þetta skref, fara í raun í eintóma skattahækkun sem málið er, gjaldahækkun, að vinna hefði verið sett af stað til að skoða einmitt þessa þætti sem ég er að tala um: Skoða lög um opinber fjármál, getur greinin gert þetta sjálf, með hvaða hætti, á að leggja þetta á öll hross sem eru seld, öll folöld eða er hægt að fara aðrar leiðir? Ég efast ekki um að greinin sjálf er örugglega með einhverjar ákveðnar hugmyndir um það. Ég vil bara leyfa henni að ákveða það.

Ég hef mínar efasemdir núna og fyrst og fremst vil ég kanna þetta vel. Ég undirstrika að ég virði sögu þessa sjóðs. Hann var mikilvægur á sínum tíma en ég held að við séum komin að ákveðnum tímamótum í þá veru að við eigum ekki að taka bara þetta skref að hækka skattinn heldur miklu frekar að stoppa og segja við greinina: Viljið þið skoða þetta mál betur, kæru vinir.

Það er óeining meðal útflytjenda um þetta mál og ég held að það sé fyllsta ástæða til þess að ríkisvaldið stoppi og spyrji líka sjálft hvort við séum að fara réttu leiðina, nútímalegu leiðina og leiðina sem við teljum að sé lögum samkvæmt. Er hún það? Ég ítreka spurninguna: Er þetta mál samkvæmt lögum um opinber fjármál? Fyrir utan það að ég hef náttúrlega mínar efasemdir um þessa skattahækkun.