149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

útflutningur hrossa.

179. mál
[15:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka sömuleiðis hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni, þingmanni Norðvesturkjördæmis fyrir framsöguna. Ég skil alveg hans efasemdir og ég skil líka það sjónarmið að vilja bara fara með málið áfram núna og síðan verði það tekið til endurskoðunar. Ég hefði viljað sjá þetta með öðrum hætti. Ég hefði líka viljað að þingmenn Sjálfstæðisflokksins stöldruðu aðeins við og spyrðu sig spurninga um prinsippin sem eru öll þarna og er hægt að spyrja sig um í þessu máli, sem er ekkert risastórt, en það er ágætt að pæla í því hvort þetta sé í samræmi við það sem ég hef verið að benda á, hvort það sé rétt að auka gjöld á þessu stigi í staðinn fyrir að fara í endurskoðun, hvort þetta standist og sé í samræmi við lög um opinber fjármál og nútímastjórnsýslu. Þetta eru mínar pælingar og ég held mig fast við það að ég vil gjarnan að þetta mál verði látið liggja og greinin sjálf greiði úr því.