149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

símenntun og fullorðinsfræðsla.

352. mál
[16:27]
Horfa

Una María Óskarsdóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrirspurnina og þakka enn fremur hæstv. ráðherra svörin. Já, starfsemi símenntunarmiðstöðva er sannarlega mikilvægur grunnur til að viðhalda menntun á landsbyggðinni. Það skiptir sköpum að hringinn í kringum landið geti almenningur sótt sér menntun hvar svo sem fólk er statt á menntabrautinni. Það er einnig mjög brýnt að fólk þurfi ekki að fara um langan veg og við vitum öll að mennt er máttur og grunnur að margvíslegri velferð.

Sérstaklega finnst mér þetta starf mikilvægt fyrir, eins og kom fram áðan, innflytjendur varðandi íslenskunám, fyrir fatlaða og aðra hópa sem e.t.v. eiga erfitt með að fara um langan veg. Hér minntist ráðherrann áðan á að hann væri með í undirbúningi lög um fullorðinsfræðslu. Ég vil fagna því og vil hvetja hann til þess að láta vinna úttekt á starfsemi símenntunarmiðstöðva og styrkja þar með faglega og rekstrarlega umgjörð starfseminnar. Eftir því sem ég best veit þá var slík úttekt síðast gerð 2002.