149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

símenntun og fullorðinsfræðsla.

352. mál
[16:30]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir hv. þingmenn þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég tek undir mikilvægi símenntunar og fullorðinsfræðslu um land allt. Þá vildi ég minna sérstaklega á þau svæði sem eru flokkuð undir brothættar byggðir, eins og Skaftárhrepp. Þar hafa þau verið að reyna að koma svona stöð á og tryggja starfsemina undir regnhlífinni þekkingarsetur.

Það eru misjöfn nöfn á þessu en þau miða öll að því sama, að reyna að hækka menntunarstig á svæðinu til þess að styrkja byggð og tryggja búsetu á þeim stöðum sem eru lengra frá stjórnsýslunni og öðrum menntastofnunum. Ég tel mikilvægt að hljóð og mynd fari saman hjá stjórnvöldum þannig að eitt ráðuneyti setji ekki af stað verkefnið Brothættar byggðir í gegnum Byggðastofnun og því sé síðan ekki fylgt eftir í öðrum ráðuneytum.