149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

símenntun og fullorðinsfræðsla.

352. mál
[16:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka ágætar upplýsingar frá hæstv. ráðherra. Það er enginn vafi á því að við erum sammála um mikilvægi símenntunarmiðstöðvanna og að sú starfsemi sé í föstum skorðum og sé öflug um allt land. Símenntunarmiðstöðvarnar eru náttúrlega reknar á grunni samfélagslegra markmiða og standa sveitarfélögin, ríkisstofnanir, stéttarfélög eða jafnvel atvinnulífið að þessari starfsemi, fulltrúar nærsamfélagsins. Mér heyrist að þau áform sem uppi eru verði síst til þess að festa í sessi og auka festuna í starfsemi símenntunarmiðstöðva í landinu.

Ég hef upplýsingar um það að stjórnendum hafi borist til eyrna fyrir nokkru upplýsingar um að ráðuneytið sé að undirbúa útboð á samningsskyldum verkefnum símenntunarmiðstöðva og án þess að þær hafi verið hafðar með í ráðum og þar með hafi þeim ekki gefist færi á að ígrunda málið nánar eða bregðast við.

Ég spyr ráðherra: Er það rétt að verið sé að undirbúa útboð á mikilvægum þáttum í símenntun og fullorðinsfræðslu? Og hvaða áhrif mun það hafa á starfsemina að mati ráðherra? Hvernig sér ráðherra fyrir sér í framkvæmd útboð á þessari þjónustu einmitt í tengslum við það sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason nefndi, að við þurfum að styrkja þessa þjónustu í brothættum og viðkvæmum byggðum?