149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

námsgögn fyrir framhaldsskóla.

407. mál
[16:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Herra forseti. Ég held að ég byrji umræðuna svolítið á þeim nótum sem henni lauk, þ.e. um mikið brottfall hér á landi úr framhaldsskólum. Mig langar að tengja það fyrirspurn minni um námsgögn fyrir framhaldsskólanemendur. Ég fer svolítið um víðan völl en fyrsta spurningin er einföld: Telur ráðherra að aukin fjölbreytni kennsluaðferða, þar með talið varðandi framsetningu námsefnis, sé vænleg til að bregðast við brottfalli úr framhaldsskólum, ekki síst drengja?

En þetta snýst ekki bara um brottfall. Staðreyndin er sú, eins og mjög ítarlega var greint frá í fréttum í haust, að á sama tíma og nemendur í framhaldsskóla verja tugum þúsundum króna í bækur á hverri önn, enda margar þeirra uppi í hillu ólesnar, lítið farið yfir þær og í mörgum fögum vantar hreinlega námsefni fyrir nákvæmlega sömu framhaldsskólanemendur.

Fram kemur hjá sérfræðingum að kerfið sé allt að því ónýtt, það sé lítill sem enginn hvati til að gefa út nýjar bækur. Námsgagnaútgáfa fyrir framhaldsskóla hafi aldrei verið upp á marga fiska en staðan hafi versnað síðastliðin ár. Bent hefur verið á t.d. að eftir stofnun þróunarsjóðs námsgagna árið 2007 hafi verið skorið niður árið 2011 og síðan hefur ekki tekist að lyfta því upp aftur. Á hverju einasta ári hafa umsóknir verið margfalt hærri í upphæðum en sem nemur þeim fjármunum sem eru í sjóðnum, þannig að hann mætir ekki þörfinni.

Menn taka svo djúpt í árinni að segja að það viðskiptakerfi sem er við lýði í námsbókaútgáfu framhaldsskóla sé ónýtt. Það sé úrelt og hafi ekki fylgt þörfum markaðarins, ekki nemendanna og ekki þörfum skólanna í þessu sívaxandi og breytilega umhverfi sem við búum við. Við þurfum nýtt kerfi, er sagt, og aðrar leikreglur á þessum markaði til að þetta virki.

Spurning númer tvö til hæstv. ráðherra er því: Hefur ráðherra í hyggju að ráðast í ákveðnar aðgerðir til að tryggja fjölbreytni í framsetningu námsefnis? Ef svo er, hverjar eru þær aðgerðir helstar og innan hvaða tímamarka hyggst ráðherra hrinda þeim í framkvæmd?

Þriðji angi fyrirspurnarinnar lýtur að sérstöku áhugamáli hæstv. ráðherra, íslensku tungunni okkar. Staðreyndin er sú að þær bækur sem þó eru gefnar út fyrir framhaldsskólanemendur eru margar hverjar alls ekkert á íslensku. Það er nokkuð galið að á sama tíma og við tölum fjálglega um íslenska tungu sé 16, 17, 18 ára ungmennum gert að læra mjög flókin fög á borð við stærðfræði, líffræði, eðlisfræði og efnafræði á ensku. Ég geri engar athugasemdir við það að enskan sé þjálfuð í þessu tilliti, en við getum ekki á sama tíma talað fjálglega um að íslenskan sé þjóðtunga og treyst okkur síðan ekki til að kenna ungmennum okkar fögin á málinu og, nota bene, sem kennarinn síðan (Forseti hringir.) ræðir akkúrat um á íslensku og börnin viti ekki hvora retoríkina á að nota.

Þetta er síðasta spurningin: (Forseti hringir.) Telur ráðherra að ein leið að markmiði tillögu til þingsályktunar um íslensku sem þjóðtungu Íslendinga og opinbert mál á Íslandi, (Forseti hringir.) um nauðsyn þess að tryggja að íslenskan verði notuð áfram á öllum sviðum íslensks samfélags, (Forseti hringir.) sé að tryggja nemendum íslenskra framhaldsskóla aðgang að námsefni á íslensku í námsgreinum sem eru á annað borð kenndar á íslensku?