149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

styrkir til kaupa á hjálpartækjum.

351. mál
[17:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Þórarinsson beindi til mín munnlegri fyrirspurn um styrki til kaupa á hjálpartækjum. Hann spyr hvort reglur hafi verið endurskoðaðar með það að markmiði að lækka kostnað þess hóps sjúkratryggðra sem sannarlega þarf á lyfjum að halda, eins og t.d. sykursjúkra, en þarf auk þess hjálpartæki og hefur af því töluverðan aukakostnað. Ef svo er spyr fyrirspyrjandi hvernig endurskoðun hafi verið háttað og hversu mikið kostnaður hafi lækkað.

Svarið er á þann veg að reglur um styrki til kaupa á hjálpartækjum hafa ekki verið endurskoðaðar í heild sinni með það að markmiði að lækka kostnað þessa hóps sjúkratryggðra en settur hefur verið af stað hópur til að fjalla um endurskoðun á fyrirkomulagi varðandi hjálpartæki almennt. Sá hópur hefur haft það hlutverk að endurskoða í heild fyrirkomulag varðandi hjálpartæki og ekki síst að teknu tilliti til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs og samfélags- og atvinnuþátttöku, en einnig í ljósi verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga, jafnræðis og tækniþróunar. Það sem ég óskaði eftir við þennan hóp, sem ég setti af stað í janúar eða febrúar á þessu ári, var að taka til skoðunar lagaumhverfið, reglugerðir en líka framkvæmdina á þessu regluverki. Það var alveg ljóst, þegar ég fór að skoða það umhverfi sem fyrir lá sem heilbrigðisráðherra, að þau mál sem lutu að hjálpartækjunum sérstaklega höfðu mætt afgangi um langt árabil. Þó er rétt að geta þess að nýlega var gerð sú breyting á reglum um styrki til kaupa á hjálpartækjum að greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga í innöndunartækjum þeirra sem eru haldnir slímseigjusjúkdómi, þ.e. cystic fibrosis, var hækkuð úr 70% í 100%. Þessi breyting varðar einstaklinga sem þurfa bæði á lyfjum og hjálpartækjum að halda þannig að sú breyting er tiltölulega nýleg. Þegar unnið var að nýju greiðsluþátttökukerfi sjúkratryggðra í heilbrigðisþjónustu, sem tók gildi 1. maí 2017, var rætt sérstaklega hvort rétt þætti að fella hjálpartæki undir kerfið í heild. Þá þótti það ekki ráðlegt fyrr en reynsla væri komin á kerfið og nú er það svo að reynslan er orðin hartnær hálft annað ár þannig að full ástæða er til að skoða þann þátt einnig, þ.e. hvort greiðsluþátttakan ætti að taka enn þá meira til hjálpartækja. Kostnaður Sjúkratrygginga við hjálpartæki hefur verið að aukast ár frá ári og það mætti kanna hvaða kostnaðaraukningu það hefði í för með sér fyrir Sjúkratryggingar að fella hjálpartæki undir þetta greiðsluþátttökukerfi.

Varðandi hópinn sem ég nefndi áðan var stefnt að því að hópurinn skilaði af sér tillögum til mín 1. október 2018 en þar um bil fékk ég bráðabirgðaskil frá hópnum með nokkrum ábendingum sem lutu að breytingum á reglugerðum sem mér væri bæði ljúft og skylt að gera hv. þingmanni grein fyrir með sérstökum hætti, jafnvel skriflega. Hópurinn hefur lokið sinni greiningarvinnu og þetta er hópur sem er undir formennsku hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur með aðkomu þeirra sem best þekkja til. Hópurinn er núna að vinna skýrslu með niðurstöðum og tillögum til ráðherra og samkvæmt þeirri áfangaskýrslu sem ég fékk um mánaðamótin október/nóvember er markmið hópsins að ljúka við skýrsluna fyrir áramótin.

Mitt svar til hv. þingmanns er í meginatriðum það að hjálpartækjamálin eru sannarlega á dagskrá hjá mér. Ég setti þessa vinnu í gang um leið og ég hafði tekið við embætti enda hafði ég orðið þess áskynja að málin hefðu mætt afgangi.