149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

styrkir til kaupa á hjálpartækjum.

351. mál
[17:05]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir að taka þetta mál upp hér. Hann tók upp hjálpartækjavinkilinn mest út frá sjónarhorni þeirra sem hafa sykursýki, en það er mikilvægt að það komi fram að þetta sama getur átt við í rauninni um marga aðra sjúkdómaflokka, til að mynda marga gigtarsjúkdóma og ýmsa taugasjúkdóma. Það er mikilvægt að líkt gildi um meðferð mála, þó náttúrlega þannig að þeir sem hafa mesta þörf á hverjum tíma gangi fyrir. Það er hins vegar þannig, og það er sjónarmið sem ég vil koma á framfæri, að að mínu mati á það að vera þannig að hjálpartæki eiga í öllum grundvallaratriðum að vera fólki endurgjaldslaus vegna þess að þau eru í rauninni leiðin til að samfélagið tryggi að þeir sem þurfa á þeim að halda (Forseti hringir.) geti haft fulla samfélagsþátttöku.