149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

styrkir til kaupa á hjálpartækjum.

351. mál
[17:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgir Þórarinsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því að þessi mál séu sannarlega á hennar dagskrá enda ekki vanþörf á þar sem þetta hefur mætt afgangi. Það er náttúrlega afar slæmt vegna þess að ég held að í krónum talið hafi styrkir til þessa málaflokks ekki hækkað, að ég held a.m.k., síðan 2007. Ég tek undir með hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni sem sagði að hjálpartæki ættu að vera endurgjaldslaus. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þingmanni vegna þess að þetta skiptir viðkomandi einstaklinga mjög miklu máli. Þetta er líka fyrirbyggjandi og þar vil ég koma sérstaklega inn á mikilvægi stoðtækjafræðinga. Það er nauðsynlegt að efla starf þeirra innan heilbrigðisstofnana. Það væri fróðlegt að fá skoðun ráðherra á því.

Stoðtækjafræðingar geta gert mjög margt gott og hlutverk þeirra öðru fremur er að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að forðast það að notendur verði fyrir útlimamissi, en þekking almennings og annars heilbrigðisstarfsfólks á mikilvægi hlutverks stoðtækjafræðinga er að mínum dómi ekki nægileg. Það þarf að bæta úr því. Stoðtækjafræðingar hjálpa sjúklingum að auka og viðhalda færni, efla þátttöku þeirra í daglegu lífi, auk þess að efla sjálfstæði og auka lífsgæði sjúklinga. En ég árétta líka að velferðarnefnd lagði á sínum tíma til að þetta yrði endurskoðað, t.d. hvað varðar sykursjúka, og ég held að það sé mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að það verði gert. Ég hvet ráðherra til dáða í þessum efnum.