149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegu forseti. Óendanleikinn takmarkast náttúrlega af líftíma þess sem á viðkomandi auð og á einhverjum tímapunkti getur viðkomandi sagt: Ég græði meira á því að selja þetta frá mér núna og draga ekki á óendanleikann af því að ég er hvort eð er takmarkaður sjálfur.

Hvað varðar hagsmunatengslin erum við með eina reglu, hún er mjög einföld: Þú greiðir ekki atkvæði þegar kemur að því að ákveða hvort þú fáir pening til sjálfs þín nema það sé almenn regla, t.d. eins og með tekjuskatt. Við getum greitt atkvæði um hvernig tekjuskattur sorterast meira að segja til okkar eða er ekki öðruvísi en er til að framan. En reglan er einfaldlega sú: Ef þú þarft að greiða atkvæði um eitthvað þar sem afleiðing þess frumvarps eða hvað sem það er, leiðir til þess að þú færð pening, ekki almennt allir, heldur þú sérstaklega, þá þarftu að gera grein fyrir því og sérstaklega ef þú ert í því tilviki vanhæfur til að taka þátt í þeirri atkvæðagreiðslu. Það er ein regla. Að sjálfsögðu geta kennarar tekið þátt í umræðum um kennslu og verkalýðsleiðtogar í umræðum um launakjör almennt o.s.frv., en þegar þeir fara að greiða atkvæði um eitthvað sem skilar peningi inn á bankareikninginn þeirra, þá eru það hagsmunatengsl.