149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:45]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við erum komin langleiðina að lokum 3. umr. um umdeilt frumvarp um veiðigjald. Við höfum deilt um hríð og notað mikla orku og hamast, en hefur okkur miðað áleiðis? Höfum við færst úr stað? Það er álitamál. Við höfum kannski troðið marvaðann þegar best lætur.

Fiskveiðistjórnarkerfið hefur klofið þessa þjóð dálítið harkalega. Um þetta mál hefur verið deilt í árafjöld og enn deilum við. Aðalágreiningurinn er kannski ekki um það hvernig við höfum komist að þeirri niðurstöðu að nýta stofnana og hve mikið við tökum frá fiskveiðistofnunum, en þar höfum við náð miklum og góðum árangri sem vekur athygli víða um lönd. Ágreiningurinn er um eignarhaldið og hvernig við túlkum eignarhaldið á þessari auðlind, sem skilgreint er og áréttað í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, en allt hefur komið fyrir ekki. Það er túlkað með sérkennilegum hætti og þjóðin hefur ekki fengið þá aðild að þessari auðlind sem henni ber.

Við erum nú hætt að heyra hér í þingsal, eða það hefur ekki heyrst um langan tíma, að útgerðin eigi kvótann. Við erum þó komin það langt áleiðis. Það er ekkert langt síðan við fengum að heyra það að þjóðinni kæmi þetta ekkert við, þjóðin færi ekkert út á sjó til að fiska og þeir sem fiskuðu ættu með réttu að fá allan rétt til að eiga þessa auðlind. En í rauninni er samfélag okkar andsnúið þessari hugsun og við heyrum mjög víða kallað eftir breytingum. Við hlustum auðvitað eftir því og dropinn holar steininn.

Ráðstöfun auðlindarinnar hefur farið fram utan Alþingis, því miður, að miklu leyti. Það er framkvæmdarvaldið sem hefur í raun mótað mjög mikið þá stefnu sem gilt hefur og það er þyngra en tárum taki hvernig ýmsar byggðir um landið hafa farið halloka vegna þessa kerfis. Það er grátlegt að horfa upp á það að stjórnmálaflokkar sem kenna sig við félagshyggju og ég tala nú ekki um við byggðastefnu skuli geta stutt það sem felst í þeim aðgerðum sem við erum að samþykkja.

Við þurfum einbeita okkur að því að tryggja þeim útgerðum sem standa sig — í þessari grein eins og í öllum öðrum atvinnugreinum standa menn misjafnlega að sinni útgerð — öruggan framtíðarrekstur, það er heila málið.

Við höfum fengið svo oft að heyra það að þeir sem leggja eitthvað annað til en það sem í gildi er núna séu niðurrifsmenn og jafnvel allt að því landráðamenn. Breytingar á kerfinu verða auðvitað samkvæmt okkar áliti að tryggja að fullu jafnræði í aðgangi að veiðirétti. Eigandinn, sem er auðvitað við sameiginlega, fái fullt verð fyrir veiðiréttinn og að þessu ljúki, þessum forgangi til nýtingar á auðlindinni sem við höfum gengist undir á undanförnum áratugum.

Við leggjum til að veiðigjaldið breytist í endurgjald fyrir langtímaveiðirétt og að innheimta þess verði einfölduð því að hluti af vanda okkar er að við erum búin að byggja upp óskaplega flókið kerfi sem fáir hafa þekkingu á til fullnustu og það þarf að einfalda þannig að það sé skiljanlegt flestu fólki.

Það er auðvitað dapurlegt að verða vitni að því að hve mörgum tillögum okkar til að hnika kerfinu ofurlítið í breytta átt, í átt til meira réttlætis og meiri sanngirni og auðvitað í átt til frelsis og í átt til markaðshugsunarinnar, sem maður hefði álitið í útgangspunktinum að væri ær og kýr stærsta stjórnarflokksins, er hafnað. Við höfum lagt það til, held ég, þrisvar að við gerðum tilraun, þó ekki væri meira, í núverandi kerfi til þess að bjóða upp viðbótarkvóta til að kanna markaðinn, en því hefur verið hafnað. Við teljum ólíklegt að sátt náist um veiðigjald eða upphæð veiðigjalds fyrr en það verður ákvarðað með einhverri tengingu við markað.

Það er raunalegt að verða vitni að því að sérhagsmunaöfl í sjávarútvegi skuli enn hafa svo mikil ítök og áhrif hér á Alþingi, öfl sem verja stórar útgerðir á kostnað smærri útgerða og fiskvinnslu á landsbyggðinni. Þau öfl eru sterk og virðast ekki hirða mikið um skömm né heiður. Þau eru hér í þinginu. Málflutningurinn leynir sér ekki.

Við viljum breytingar, skapa möguleika til vaxtar og uppbyggingar fyrir landsmenn alla, ekki fáar stórar útgerðir sem sitja á milljarða tugum í hreinan hagnað eftir undanfarin misseri þrátt fyrir að hafa varið fordæmalausum upphæðum í endurnýjun skipaflotans. Við leggjum til útfærslu með ábyrgum hætti, en þær útfærslur eru af núverandi stjórnvöldum taldar jaðra við, eins og ég nefndi áðan, landráð. Það er raunalegt til þess að vita að öflin sem kenna sig við félagshyggju skuli leggjast á þessar árar eins og ég nefndi.

Að halda áfram að hræra í sama pottinum er varasamt þessari þjóð. Það er engin sátt um það. Og útgerðin verður auðvitað að gera sér grein fyrir því að þessu mun linna. Krafan um breytingar verður sífellt háværari og ef útgerðin heldur að samningsstaða sín muni batna eftir því sem tímar líða þá er það misskilningur.

Veiðigjaldafrumvarpið, sem við vonumst til að verði nú frestað á elleftu stundu, boðar áframhaldandi óbreytta stefnu í stjórn fiskveiða, ógagnsæi og vonlitla stöðu fyrir litlar útgerðir. Það verður jafn ómögulegt og áður fyrir nýjar útgerðir að koma ár sinni fyrir borð. Stærri útgerðir sem hafa hönd á talsverðum kvóta munu ráða lögum og lofum, drottna yfir veiðiheimildum, á meðan kvótalitlar útgerðir á landsbyggðinni þurfa að leigja af þeim heimildir en eigandinn, þjóðin sjálf, ríkissjóður, ber harla lítið úr býtum.

Það liggur ekki lífið á að samþykkja þetta frumvarp. Við leggjum til því verði frestað, við förum betur yfir málin. Það kæmi ekki á óvart að í ljós komi fyrr en varir að hér liggur einhvers staðar fiskur undir steini.