149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

þungunarrof.

393. mál
[18:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi eru persónuleg dæmi úr lífi fólks ekki það sama og að vita einhvern sannleik í einhverju máli. Það sem ég var að vísa í með þessu er að ég heyri stöðugt þetta orð notað, þungbært. Og ég skil alveg af hverju fólk vísar endalaust til þess þegar það talar um þungunarrof af því að það vill halda því fram og halda því til haga að þetta er aldrei ákvörðun sem það tekur í einhverju flippi eða bara svona af því að það langar til að ganga inn á kvennadeild Landspítalans og fara í þungunarrof. Þetta er erfið ákvörðun hverri konu sem hana tekur.

En að hún sitji í sárum, hver einasta kona sem fer í þungunarrof, sem tekur skynsamlega ákvörðun fyrir sig og líf sitt, að hún þurfi einhvern veginn að jafna sig eftir það í fleiri mánuði og það sé þess vegna svo þungbært — ég er að reyna að koma í veg fyrir þessa orðræðu vegna þess að ég held að það sé bara alls ekki alltaf þannig. Það getur oft verið mikill léttir að komast hjá því að þurfa að ganga með barn sem maður vill bara alls ekkert ganga með.

Og að tala endurtekið um þetta sem einhvers konar jarðarför — það finnst mér bara vandamál. Vegna þess að þetta er erfið ákvörðun. Það tekur hana enginn af léttúð. En það er heldur ekki þannig að allar konur sitji og þurfi sálfræðimeðferð í fleiri ár eftir að hafa farið í þungunarrof. Það er bara ekki svoleiðis. Ég vildi halda þessu til haga.

Hvað aðrar tilvísanir hv. þingmanns varðar um fólk sem á í erfiðleikum með að eignast börn eða hefur eignast andvana barn þá var bara mjög erfitt að skilja eitthvað annað á orðum hv. þingmanns en að konur ættu að lesa út úr því að íhuga alvarlega hvort þær gengju ekki frekar með barnið til að barnlaust fólk geti fengið börn. Og það hljómar bara eins og staðgöngumæðrun fyrir mér. Ég get hreinlega ekki að því gert, því miður.