149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[20:19]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er aldeilis fróðlegt að heyra að einræður hv. þm. Jóns Gunnarssonar í fréttum sjónvarpsins eru ekki lögmál í þingsal. Hv. þingmaður og starfandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar hefur boðað að þetta mjög svo óklárað mál verði afgreitt út úr nefnd og sett hér á dagskrá. Það er svo að málfundafélag Sjálfstæðisflokksins hefur farið með hugmyndir einstakra þingmanna á hringferð um landið undanfarnar vikur og mánuði og þó að einstaka þingmaður þess ágæta flokks telji að flokkurinn sé upphaf og endir alls er það samt þannig að meginþorri almennings í landinu mætir ekkert á einhverja fundi í þeim klúbbi. Þannig að reyna að láta eins og það sé eitthvert samráð að fara með málfundi í einhverjum stjórnmálaflokki um landið — það er auðvitað ekkert samráð, herra forseti. Við verðum að eiga samtalið hér inni í þinginu og það hefur ekki átt sér stað.