149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2018.

449. mál
[23:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Með þingsályktunartillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2018 sem gengið var frá til bráðabirgða með bréfaskiptum milli stjórnvalda ríkjanna fyrr á þessu ári.

Samningurinn kveður á um heimildir aðila til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvors annars á árinu 2018. Efni samningsins er þó að ákveðnu leyti frábrugðið því sem verið hefur undanfarin ár. Munurinn liggur í breyttu hámarki sem er sett á loðnuveiðar Færeyinga miðað við 5% af heildarloðnukvótanum. Hámarkið 2018 er 25.000 lestir en var áður 30.000 lestir. Þá eykst fjöldi íslenskra skipa sem mega vera við kolmunnaveiðar samtímis í lögsögu Færeyinga og fer fjöldinn úr 12 skipum upp í 15 skip. Ekki var gerður samningur milli þjóðanna um loðnuveiðar Færeyinga í íslenskri lögsögu vegna vertíðarinnar 2018/2019. Þjóðirnar samþykktu að hefja vinnu við að breyta fyrirkomulagi þessara samningaviðræðna með það að markmiði að gerður yrði rammasamningur til lengri tíma, en hægt yrði að breyta ýmsum atriðum, svo sem kvótum og aðgangi miðað við aðstæður hvers tíma.

Samningurinn gerir ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu hins á árinu 2018.

Íslenskum skipum eru heimilar veiðar á allt að 1.300 lestum af makríl innan færeyskrar lögsögu á þessu ári.

Samningurinn tók gildi til bráðabirgða í nóvember 2018. Hann öðlast endanlegt gildi þegar tilkynnt hefur verið um að stjórnskipulegum skilyrðum hvors lands um sig hafi verið fullnægt.

Áður en samningur þessi var gerður var á grundvelli samnings landanna frá árinu 1976 um heimildir Færeyinga til veiða í lögsögu Íslands ákveðið að færeyskum skipum væri heimilt að veiða 5.600 lestir af botnfiski við Ísland á árinu 2018. Heildarafli þorsks verður þó ekki meiri en 2.400 lestir, heildarafli keilu ekki meiri en 650 lestir og engar veiðar eru heimilar á lúðu eða grálúðu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.