149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

Þjóðarsjóður.

434. mál
[18:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hugsunin að sjóðurinn sé í höndum sérstakrar sjálfstæðrar stjórnar, að hann starfi samkvæmt fjárfestingarstefnu sem stjórnin leggur til og ráðherra staðfestir. Það er gert ráð fyrir því að allar fjárfestingar hans verði á erlendri grundu og að gerður verði samningur við sérhæfða aðila um að annast daglegar fjárfestingar. Þannig að þegar spurt er hvar er sjóðurinn vistaður þá er hann vistaður hjá stjórninni sem felur síðan fagaðilum að sjá um daglega reksturinn og að uppistöðu til verða eignirnar þannig í erlendum gjaldmiðlum í erlendum verðbréfum.

Varðandi góða siði vék ég stuttlega að því í mínu máli að hér er einkum verið að vísa til þess að menn gæti sín á því að styðja ekki með fjárfestingum við starfsemi sem samrýmist ekki almennu gildismati á Íslandi, þ.e. atvinnustarfsemi sem byggir á barnaþrælkun, svo dæmi sé tekið.