149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

Þjóðarsjóður.

434. mál
[18:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það skipti máli að stjórnin sé vel skipuð. Hér takast mögulega á sjónarmið um það að hve miklu leyti þurfi að skrifa nákvæmlega út í lögunum hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að eiga þess kost að sitja í stjórninni eða koma til álita við val á stjórnarmönnum. Það má hins vegar ekki gleyma því að við erum að ræða hér að það verði í raun og veru þrír aðilar sem hafi tilnefningarréttinn, þ.e. forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og svo þingið með þrjá stjórnarmenn. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að þeir aðilar ættu að gera sér grein fyrir þessum sjónarmiðum og mikilvægi þess að þeir sem veljast til starfans hafi ekki stórlaskað orðspor eða séu hvorki með reynslu eða hæfileika eða á annan hátt líklegir til þess að geta sinnt starfinu. En ég held að þetta sé atriði sem er ágætt að ræða í þinglegri meðferð og geri engar athugasemdir við það ef hér myndast einhver meirihlutaskoðun um að þetta mætti skrifa nánar út.