149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

Þjóðarsjóður.

434. mál
[18:37]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Annað sem mig langar að minnast á eru bráðabirgðaákvæðin. Þetta er tryggingarsjóður fyrir hugsanlegum áföllum og áföll verða yfirleitt óvænt. Þarna er sem sagt verið að taka til hliðar og eins og hæstv. ráðherra minntist á fer það raunverulega ekki beint inn í Þjóðarsjóð heldur til tiltekinna verkefna, sem vissulega eru brýn, ég er ekki að kasta rýrð á þau, alls ekki, en maður hefði kannski haldið að fjármálastefna og fjármálaáætlun og fjárlög ættu að takast á við þau verkefni. Þau eru vissulega ekki áföll af neinu tagi. Ég held að rétt sé að hafa mjög ríkt í huga þann freistnivanda sem verður til þegar sjóðnum vex fiskur um hrygg, að menn seilist í hann (Forseti hringir.) til góðra verkefna, sem geta verið af ýmsu tagi. Þá velti ég fyrir mér hvort það sé ekki óheppilegt að setja (Forseti hringir.) einhvers konar fordæmi þegar á upphafsdögum sjóðsins.