149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

Þjóðarsjóður.

434. mál
[19:50]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Mér var kennt það í æsku að ég ætti að leggja til hliðar ef ég ætti eitthvað afgangs. Það borgaði sig. Okkur var kennt að það væri dyggð að spara. Að því leyti til er þetta dyggðum prýtt frumvarp til laga um Þjóðarsjóð sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra leggur fram í kvöld.

Ég get ekki annað en óskað honum og Sjálfstæðisflokknum til hamingju með að leggja það fram. Í efni frumvarpsins felst mikil yfirlýsing og ég fæ ekki betur séð en að ljósin hafi verið kveikt og að menn komi nú auga á hin skynsamlegu og góðu markmið sem við jafnaðarmenn höfum talað svo lengi fyrir, að auðlindirnar koma okkur við, okkur landsmönnum öllum, þetta sé eign okkar landsmanna sem við eigum að hafa eitthvað með að gera og eiga hlutdeild að.

Ég el þá von í brjósti að þetta sé upphafið að breyttum tímum og að við fetum okkur lengra inn á þá braut að nýta saman það sem landið gefur okkur, auðlindirnar, og getum byggt upp með þeim hætti þjónustu af ýmsu tagi og tekið við áföllum sem verða. Ég hef ekki haft tækifæri til að lesa mjög vandlega í gegnum frumvarpið og ætla ekki að fara efnislega í það en auðvitað eru þarna álitamál og mörgum spurningum ósvarað. Ég geri ráð fyrir því að í umræðunni og í umfjöllun þingsins muni álitamálum verða eytt en hæstv. ráðherra hefur auðvitað gert okkur grein fyrir ýmsum þáttum, hvenær Þjóðarsjóður komi til bjargar áföllum og hvenær ekki og að þarna geti ef vel tekst til safnast dágóður sjóður.

Þetta er kannski ekki í þeim anda sem við jafnaðarmenn höfum lagt til og talað fyrir en allt um það getum við ekki ætlast til þess að Sjálfstæðisflokkurinn kokgleypi hugmyndafræði okkar jafnaðarmanna í einum bita. Við trúum því að hugmyndir okkar fái samt að njóta sín á dómsins æðsta degi, skulum við segja.

Í 5. gr. segir, með leyfi forseta:

„Veita skal framlög til Þjóðarsjóðs sem eru jafnhá öllum tekjum sem ríkissjóður hefur haft af arðgreiðslum, leigutekjum og öðrum tekjum vegna nýtingar orkuauðlinda á forræði ríkisins frá orkufyrirtækjum …“

Þetta segir sína sögu. Þarna er álitamunur. Við höfum lagt til ákveðið hlutfall af veltu eða tekjum raforkufyrirtækjanna af hverri kílóvattstund, að greitt sé lítið gjald fyrir afnotin af auðlindinni, svipað því og gert er víða annars staðar. Noregur var nefndur til sögunnar og olíusjóðurinn mikli. Þar greiða menn gjald sem er trúlega eitthvert hlutfall af veltunni. Því má velta fyrir sér og það mun auðvitað þróast í umræðunni. Þarna er kannski fyrst og fremst um opinber orkufyrirtæki að ræða. Hvað um orkufyrirtæki sem ekki eru í opinberri eigu, eru einkahlutafélög eða hlutafélög í eigu bæði innlendra og erlendra fyrirtækja?

Frú forseti. Það er alkunna að við höfum talað fyrir auðlindasjóði og að við eigum að njóta auðlindarentunnar sameiginlega. Þá hrökkva talsmenn úr flokki hæstv. ráðherra til baka og segja að ekki megi skattleggja of mikið, það virki letjandi. Við í okkar góða jafnaðarmannaflokki erum ekki talsmenn neinna ofurskatta. Við gerum okkur hins vegar grein fyrir að margs þarf búið við. Við viljum öfluga velferðarþjónustu og það sárvantar peninga inn í þann flokk, t.d. í dag, og að nýgenginni umræðunni um fjárlagafrumvarp liggur fyrir að það þarf að stoppa upp í ýmsa holuna.

Hæstv. ráðherra nefndi í ræðu sinni áðan að skattar á Íslandi væru frekar háir á heimsvísu. Af hverju eru menn að tala um heimsvísu? Af hverju takmörkum við ekki umræðuna við Norðurlönd? Við viljum vera velferðarsamfélag á skandinavíska vísu þar sem ríkir mest velferð á heimsvísu og eigum að miða okkur við það. Þegar upp er staðið erum við ekki með hærri skatta en gerist og gengur annars staðar á Norðurlöndum.

Ég ætla ekki að draga þetta á langinn en leyfi mér að endurtaka að ég tel að þetta sé hamingjudagur, sérstaklega fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Í þessu er fólgin mikilvæg viðurkenning og við skulum horfa fram á veginn og hugsa til þess að eignast auðlindasjóð sem getur nýst okkur mjög vel. Þar hugsum við til heita vatnsins og við skulum hugsa til kalda vatnsins og verðmæta sem finnast í jörðu og ég tala nú ekki um fiskinn í sjónum sem við höfum mest fjallað um, en það eru mörg önnur verðmæti sem við eigum að ræða sem sameiginlega eign okkar, nú síðast kannski umræðuna um fiskeldið. Þar erum við komin af stað í lagaumhverfi sem er mjög losaralegt. Þar þurfum við að hafa hreina og skýra auðlindastefnu sem kemur okkur öllum til góða og við þurfum að skapa um það sátt.

Það verður fróðlegt og ánægjulegt að fjalla um þetta áfram í þinginu. Þetta frumvarp ber í sér fegurð sem við skulum meta og vonandi að það verði okkur til farsældar og að við þurfum ekki að nýta þetta í stórum áföllum sem eru til skaða fyrir landsmenn heldur á einhvern uppbyggilegan hátt.