149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

Þjóðarsjóður.

434. mál
[19:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka almennt fyrir mjög jákvæð viðbrögð við málinu og góðar undirtektir við þessari hugmynd, sem ég þreytist ekki á að segja að byggir í raun og veru alfarið á samstöðu í þingi og til lengri framtíðar vegna þess að til lítils er að leggja af stað í þetta mikla langferð sem sjóðsöfnun sem þessi er ef það er gert í átökum og menn eru ósammála um grundvallaratriði þannig að ólíklegt er að sáttin eða meirihlutaviljinn haldist til lengri tíma. Það er mjög mikils virði og sömuleiðis skiptir máli að þinglega meðferðin sé vönduð og að við horfum til þeirra ólíku sjónarmiða sem reynt getur á á langri vegferð. Hér hefur verið komið inn á þó nokkuð mörg atriði, t.d. hefur verið farið inn á ábyrgðina sem samkvæmt lögum um Stjórnarráðið hvílir hjá viðkomandi fagráðherra, en ég vek líka athygli á 12. gr. frumvarpsins sem fjallar um það að gerður er ársreikningur fyrir hvert reikningsár og hann endurskoðaður af ríkisendurskoðanda.

Síðan er gert ráð fyrir samkvæmt 2. mgr. að ráðherra fái skýrslu eigi sjaldnar en ársfjórðungslega, sem sagt fjórum sinnum á ári. Þær eru gerðar opinberar og ráðherra gerir Alþingi grein fyrir starfsemi sjóðsins á hverju ári. Það er sjálfsagt að það komi fram að því var velt upp hvort ástæða væri til að ráðherra gerði Alþingi grein fyrir stöðu sjóðsins oftar, en ég tel að árleg, skrifleg greinargerð til þingsins til viðbótar við opinbera birtingu ársfjórðungsskýrslna sé algerlega fullnægjandi og engin ástæða til að ætla annað — ef þingið hefur ástæðu til að kalla eftir frekari upplýsingagjöf verður við því brugðist.

Síðan hefur verið rætt nokkuð í kvöld um stjórn sjóðsins. Ég hef sagt áður í andsvari í kvöld að sjálfsagt er að ræða það frekar og er þá leiðbeiningu að finna í 3. gr. frumvarpsins. Þarna geta togast á sjónarmið um að hve miklu leyti við getum gengið út frá því að þingið muni velja hæfa einstaklinga, svo og forsætisráðherra og fjármálaráðherra, eða að hvaða marki þeir þurfi mjög skýra leiðbeiningu í lögum. Ég hef almennt verið þeirrar skoðunar að það eigi að vera hægt að ganga út frá því að forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, eða sjálft þingið, muni aldrei tilnefna þá einstaklinga sem ekki séu almennt til þess fallnir að geta sinnt hlutverkinu. Hér er farin sú leið að nota tiltölulega almennt orðalag; sérfræðiþekking og starfsreynsla, sérstaklega á fjármálamarkaði, hagfræði o.s.frv., en þetta er sjálfsagt að ræða.

Einnig hefur verið komið inn á það í kvöld að það þyrfti að vera algjörlega á hreinu hvort sjóðnum væri heimilt að fjárfesta á Íslandi. Ég hafði látið þau orð falla í andsvari að óheppilegt væri að sjóðurinn fjárfesti innan lands, en ég átti við með þeim orðum að ástæða er fyrir því að honum er bannað að fjárfesta innan lands. Það er vegna þess að það er óheppilegt. Ég var ekki að gefa í skyn með þeim orðum að sjóðurinn hefði heimildir til þess, enda er það mjög skýrt afmarkað í 11. gr. frumvarpsins, eins og þar segir, með leyfi forseta, í 1. mgr.:

„Óheimilt er að fjárfesta í verðbréfum eða öðrum fjármálagjörningum útgefnum í íslenskum krónum eða útgefnum af aðilum með lögheimili á Íslandi eða í eigu erlends aðila, sem íslenskir aðilar eiga meira en tvo hundraðshluta í.“

Það eru mjög strangar reglur hvað þetta snertir og alveg ljóst að verið er að beina fjárfestingum út úr landinu. Þetta leyfi ég mér að láta duga sem samantekt á nokkrum atriðum sem snerta efnisatriði frumvarpsins.

Ég ætla að leyfa mér að fara örfáum orðum um almenn atriði, t.d. um þá tegund sjóðs sem við erum að leggja drög að. Það er rétt sem hv. þm. Guðjón Brjánsson kom inn á, að flogið hafa fyrir ýmiss konar hugmyndir að sjóðum, m.a. auðlindasjóðum, sjóðum sem myndu taka við og jafnvel deila aftur út auðlindarentu af einhverju tagi, gæti verið vegna fiskveiða eða annarrar auðlindanýtingar. Ég myndi segja að sá væri munurinn á slíkum sjóðum og þeim sem við erum að ræða um hér að við erum í fyrsta lagi að afmarka tekjuuppsprettu sjóðsins við tiltölulega þröngt svið sem er orkuauðlindirnar og með því að marka þá stefnu í þessum lögum að við erum ekki að leggja upp með að nýting annarra auðlinda renni til sjóðsins, eins og t.d. fiskveiðiauðlindarinnar. En hitt skiptir þó meiru að við erum fyrst og fremst að tala um sjóðsöfnun á meðan oft hafa komið fyrir hugmyndir um eins konar millifærslusjóði sem myndu þá safna afrakstri af nýtingu margs konar auðlinda en jafnharðan deila út til ákveðinna eyrnamerktra verkefna. Það er töluvert mikill munur á þeirri hugmyndafræði og þeirri sem við erum hér að nefna og leggja til.

Mig langar til að nefna sérstaklega ábendingar frá hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni sem rakti það hversu mörg dæmi sagan geymir um alvarlegar náttúruhamfarir sem geta birst okkur óvænt en þó reglulega, a.m.k. í sögulegu tilliti, og hversu umfangsmiklar þær geta verið og að af þeim sökum eigi menn að fara varlega í að gera ráð fyrir stórum útgreiðslum úr sjóðnum, a.m.k. meðan hann hefur ekki náð tiltekinni stærð, til annarra verkefna en þeirra sem tengjast slíkum náttúruhamförum. Ég held að þetta sé mjög góð ábending og ég vil beina því til nefndarinnar að taka þetta til skoðunar, þ.e. að mögulega á meðan við höfum ekki safnað upp getu til að hafa lágmarksviðbúnað vegna slíkra þátta gæti verið óráðlegt að ráðstafa hálfum sjóðnum til áfalla annarra tegunda, jafnvel þótt það gæti þýtt einhverja skuldasöfnun fyrir ríkissjóð. Þarna getur verið mjög vandasamt að draga mörkin vegna þess að grunnuppleggið í lögunum sem hérna er verið að smíða er að sjálfsögðu það að aldrei eigi að geta komið til útgreiðslu úr sjóðnum nema við höfum lent í meiri háttar áföllum. Að því leytinu til getur reynst nauðsynlegt að hafa hreinar línur og segja: Það þarf að vera eitthvað mjög stórt, eitthvað mjög alvarlegt, sem veldur því að ef við getum ekki stuðst við sjóðinn, þá tryggingu, þann viðbúnað sem hann veitir, lendum við í skertum lífskjörum eða í því að skuldsetja okkur til langrar framtíðar og velta vandanum á undan okkur. Það geta verið rök með því að hafa þær línur þannig skýrar. En eftir því sem skilin verða óljósari á milli áfalla sem tengjast náttúruhamförum, algerlega óviðráðanlegum ytri atburðum, og síðan atburða sem mögulega verða af mannavöldum — það geta verið hlutir, ég meina: Hvað á maður að láta sér detta í hug í ræðustól? Það strandar kjarnorkukafbátur á fiskimiðunum. Það geta orðið hroðaleg flugslys. Netárásir hafa verið nefndar, slíkir hlutir sem ekki verða leiddir beint til náttúruhamfara eða einhverra umbrota í iðrum jarðar. Slíkir hlutir geta líka haft mjög alvarlegar afleiðingar og þess vegna er alls ekki verið að girða fyrir að þeir leiði til áfalla sem kalli á útgreiðslu úr sjóðnum.

En þetta er mjög verðugt verkefni til að fara nánar ofan í saumana á. Ég vil nefna að ein leið til að nálgast þau sjónarmið sem hv. þingmaður nefndi væri hreinlega að segja að engar greiðslur af nokkru tagi mættu fara úr sjóðnum fyrr en hann næði þessari lágmarksstærð. Þá værum við í sjálfu sér að nálgast sömu hugsunina, bara engar greiðslur fyrr en sjóðurinn hefur náð ákveðinni stærð. Þá þyrftum við ekki að binda það við það að við værum að bíða eftir stóra náttúruáfallinu eða hinum miklu náttúruhamförum.

Einmitt í þessu sambandi vil ég nefna að í greinargerð með frumvarpinu er brugðist við ýmiss konar ábendingum frá mörgum aðilum, en ég geri líka ráð fyrir að umsagnir haldi áfram að berast. Við höfum svo sem létt á umsagnarferli við þinglega meðferð með því að nota samráðsgáttina. Hún hefur gagnast í þessu máli eins og mjög má sjá af greinargerðinni, en örugglega munu koma mjög gild sjónarmið upp í þinglegri meðferð, bæði beint frá þingmönnum og frá umsagnaraðilum sem veita nefndinni verðugt verkefni að fást við.

Ég ætla undir lok máls míns að þakka öllum þeim sem hafa komið að málinu og þá sérstaklega þeim sem tóku sæti í sérfræðingahópnum á sínum tíma fyrir þeirra mjög svo mikilvæga innlegg. Það er sjálfsagt að greina frá því að við lögðum upp með það í upphafi að vera mjög opin og spyrja mjög opinna spurninga, eins og þeirra hvort yfir höfuð væri einhver ástæða til að koma á fót slíkum sjóði. Við veltum líka fyrir okkur hvort slíkur sjóður ætti að hafa einhvers konar sveiflujafnandi hlutverk. Svarið við því var neikvætt. Hvort við værum með ástæðu til að fara í frekari skuldauppgreiðslu eða frekar í lífeyrisskuldbindingauppgreiðslur o.s.frv. Ég tel að öllu þessu séu gerð góð skil í frumvarpinu.

Mig langar sömuleiðis að nefna að ég hef lagt til að málið gangi til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem ég held að það eigi ágætlega heima. Ég teldi fyrir mína parta fara vel á því að nefndin fengi til liðs við sig fjárlaganefnd og fengi umsögn þaðan vegna þess að ekki verður horft fram hjá því að hér er horft til lengri tíma í ríkisfjármálalegu samhengi og þá værum við að kalla til liðs við þá sem sitja í efnahags- og viðskiptanefnd fleiri þingmenn og gætum mögulega í vinnunni náð utan um breiðari sjónarmið og vonandi fangað þau atriði sem skipta máli fyrir sem breiðasta sátt.