149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[11:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp þar sem verið er að hækka barnabætur til hagsbóta fyrir tekjulágar fjölskyldur og fjölga þeim sem eiga rétt á barnabótum um meira en tvö þúsund, atkvæði um frumvarp þar sem við hækkum persónuafslátt umfram neysluvísitölu, atkvæði um frumvarp þar sem verið er að lækka tryggingagjald, sem skiptir einmitt lítil og meðalstór fyrirtæki mestu máli, atkvæði um frumvarp þar sem við látum bæði efri og neðri mörk skattkerfisins fylgja sömu vísitölu, neysluvísitölu. Allt eru það gríðarlega miklar jöfnunaraðgerðir sem er ótrúlegt að þeir sem vilja auka jöfnuð í samfélaginu ætli ekki að styðja.

Ég mun styðja þetta frumvarp og tel að það muni svo sannarlega verða til hagsbóta til að efla hér jöfnuð og koma til móts við tekjulágt fólk. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)