149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2018.

449. mál
[11:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég styð að sjálfsögðu þetta nefndarálit enda skrifaði ég undir það en mig langaði að koma hingað upp og fara aðeins yfir það að við fengum góða heimsókn í utanríkismálanefnd í gær þar sem farið var ágætlega yfir þetta mál fyrir okkur. Ég þekki það að hafa tekið þátt í svona atkvæðagreiðslu áður, hér erum við fyrst og fremst að fjalla um eitthvað sem þegar er gert, það er búið að veiða þann fisk sem um ræðir í þessu samkomulagi en ekki hefur náðst samkomulag um það sem gerist á næstu mánuðum.

Mig langaði bara að koma hingað upp og harma í rauninni þá stöðu sem upp er komin í samskiptum okkar við okkar ágætu nágranna í Færeyjum og taka heils hugar undir og ítreka það sem nefndin segir í neðstu línu nefndarálitsins, þ.e.: Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að fyrirkomulagi samningaviðræðna verði komið í fastari skorður svo tryggja megi hagsmuni Íslands til lengri tíma.

Hvað þennan samning varðar er sem sagt hefð fyrir því að ráðherrar sjálfir hittist einu sinni ári og fari yfir málið. Ég held að það sé eðlilegra að setja þetta í einhvers konar rammasamningsfyrirkomulag sem gildi þá til lengri tíma og að samninganefnd með embættismönnum verði falið að gera viðbætur við samninginn.

Í gær fengum við þær fréttir að utanríkisráðherra Færeyinga, Poul Michelsen, hefði lagt fyrir Lögþingið á síðasta degi þingsins tillögu um að segja upp Hoyvíkursamningnum. Ráðherrann hefur svo sem talað um þetta í töluverðan tíma og við höfum óttast hvað úr verði. Mér skilst að dagurinn í dag sé síðasti dagur Færeyinga áður en þeir fara í jólafrí og þá þarf að samþykkja þessa þingsályktunartillögu eða frumvarp, ég átta mig ekki alveg á því hvers eðlis það er, fyrir áramót til að Hoyvíkursamningnum verði sagt upp. Ástæðan fyrir þessu er sú að Færeyingar samþykktu í fyrra nýja fiskveiðilöggjöf sem bannar erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi. Samkvæmt okkar Hoyvíkursamningi er það brot á því samkomulagi, Færeyingar mega fjárfesta upp á 25% í íslenskum sjávarútvegi. Það er mjög miður að okkur hafi ekki tekist að semja við Færeyinga um áframhald fríverslunar með Hoyvíkursamningnum.

Enn ber ég þá von í brjósti að þetta verði ekki samþykkt á færeyska Lögþinginu en það virðist vera mjög villandi umræða um Hoyvíkursamninginn í Færeyjum. Færeyingar eru almennt á því að þeir séu að tapa, að Íslendingar græði einhvern veginn meira á þessu samkomulagi, sem ég held að sé alls ekki rétt, enda sýna tölurnar okkar að þó að útflutningur vara sé meiri frá Íslandi kaupum við töluvert mikla þjónustu af Færeyingum.

Ég hef mikla trú á viðskiptum ríkja á milli og þessi litlu nágrannaríki næstum úti í ballarhafi hafa ýmissa sameiginlegra hagsmuna að gæta. Ég vona svo innilega að niðurstaðan verði sú að við náum samkomulagi um að halda Hoyvíkursamningnum áfram í gildi og að þessi mál, eins og við ræðum í þessari þingsályktunartillögu, þ.e. um það hvernig við gerum samninga um aðkomu og aðgengi hvors annars inn á okkar fiskveiðimið, geti komist í fastari skorður svo það séu ekki upphlaup eða einhverjar reddingar korteri fyrir áramót.