149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[17:19]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni andsvarið. Ég gæti auðvitað verið býsna meinlegur og lesið upp úr lögunum um tímabundið, ófyrirséð og óhjákvæmilegt. En ég ætla hins vegar að taka undir með hv. þingmanni. Ég held að við eigum að venja okkur af því að tala um innleiðingarferli. Það var upphaflega metið þrjú ár, eða fimm ár eftir atvikum eftir því hvaða pappíra maður les. Nú eru komin þrjú ár þannig að við eigum bara að hætta að tala um innleiðingarferlið og fara að virkja verkfæri laganna eins frekast er kostur og fara eftir þeim. Það er bara þannig.

Ég skal bæta við þráð í tali og hætta að tala um að við séum í innleiðingarferli eins og það sé einhver syndaaflausn fyrir því að horfa í gegnum fingur sér með að útgjöld séu tímabundin, ófyrirséð og óhjákvæmileg. Auðvitað ber okkur alltaf í stóru myndinni að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og eftirlit.

Af því að hv. þingmaður kom inn á skýrslu ráðherra vil ég segja að við erum núna í fyrsta skipti að skoða meira formið á skýrslunum, af því að þær gilda um árið 2017. Það er gott og gagnlegt fyrir hv. fjárlaganefnd að fara í gegnum það. En ég held að það verði býsna fróðlegt þegar við förum að taka ársskýrslur ráðherra — ég ætla ekki að segja innleiðingarferli — í ferlinu sjálfu, sem lögin eru í raun og veru, þetta ferli, stefna, áætlun, fjárlög, og svo ársskýrslur; þá verður það hluti af því sem við tölum um sem framkvæmd fjárlaga.