149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[17:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér erum við að fjalla um fjáraukalög vegna þess árs sem nú er senn á enda og eitt og annað búið að bera á góma og ræða í dag. Ég ætla að byrja á að taka undir með félögum mínum að ég held að það sé sameiginlegt markmið okkar að reyna að vanda vel til verka og draga úr þörfinni á að leggja fram fjáraukalög. Ég held þrátt fyrir áform um, og hvað á ég að segja, tilraunir til að gera góðar áætlanir verðum við að horfast í augu við það að alltaf getur eitthvað skolast til í því þrátt fyrir að allir séu af vilja gerðir. En það á auðvitað að minnka eftir því sem við förum oftar í gegnum þetta ferli. Og það verður að segjast eins og er að stundum er starfsfólki vorkunn þegar kosningar eru ár eftir ár og verið er að vinna mörg frumvörp og margar stefnur og fjárauka og alls konar mál hvað ofan í annað. Það er því ekki óeðlilegt að eitthvað skolist til og ekki sé kannski nægilega vel utan um það haldið. Ég held að við getum verið ánægð með hversu langt við erum þó komin. Þetta er lítið núna, sem betur fer, og við höfum haft þá stefnu að við viljum draga úr þessu og ég held að nefndin sé einhuga um það.

Af því að hér var minnst á innleiðingarferli man ég að þegar við fórum til Svíþjóðar, fjárlaganefndin, og ræddum við kollega okkar þar og ríkisendurskoðun og fleiri aðila, þá nefndu allir að innleiðingarferlið gæti tekið allt að tíu ár og auðvitað er það ferli ekki búið. Sumir hlutir eru komnir vel á veg á meðan við þekkjum aðra sem eru komnir mun skemur á veg, m.a. vegna kerfislægra hluta og ýmislegs annars sem þar er undir. Við þekkjum það, og talandi um staðla og ýmislegt fleira er það líka eitthvað sem ég held að við þurfum að skoða betur. Markmiðið var opnara, gegnsærra og skiljanlegra fjárkerfi ríkisins. Mér finnst það ekki vera að raungerast. Ég held að við þurfum einhvern veginn að finna út úr því hvernig við getum hjálpast að við að gera það þannig. Ég held að það sé fyrst og fremst til hagsbóta fyrir okkur öll. Það er líka hluti af því að geta áttað sig betur á þessu og koma þá frekar í veg fyrir að þurfa að taka inn í fjárauka eða í einhvers konar viðbótarfjárheimildir eða guð má vita hvað, þ.e. að gera okkur, sem vinnum við þetta, ferlið skiljanlegra, hvað þá öðrum sem þurfa að takast á við það í sínum stofnunum. Ég held að við stöndum öll saman í því að reyna að vanda okkur og gera betur og ég held að þetta sýni það þrátt fyrir allt að við erum á réttri leið. Þetta er í fyrsta skipti sem við náum frá upphafi til enda með sömu ríkisstjórn við borðið að klára þetta ferli frá því að setja stefnu til og með lokafjárlögum. Við erum búin að gera það og svo erum við með þetta mál í höndunum núna, fjáraukalögin.

Farið hefur verið ágætlega yfir hvað er á ferðinni í fjáraukalögunum. Við meiri hlutinn áréttum í áliti okkar það sem ég hef verið að segja, að okkur hefur ekki tekist þetta markmið enn þá að öllu leyti. Við tökum undir þá gagnrýni sem hefur komið fram varðandi notkun á varasjóðnum, að okkur finnst, og það endurspeglast kannski svolítið í áliti Ríkisendurskoðunar, þetta ekki alveg nógu gott með varasjóðina. Það vantar einhvers konar reglugerð eða hvernig við viljum að hann fúnkeri og það er kannski partur af því að Ríkisendurskoðun er ekki afdráttarlausari en hún er í umsögn sinni, tel ég. Ég legg mat á þetta sjálfstætt, mér dettur það kannski í hug. Og það er okkar að reyna að finna út úr því hvernig við viljum sjá þessa notkun.

Fyrst og fremst hefur verið talað um að sjóðurinn sé til að bregðast við almennri vá, hann sé til að bregðast við launamálum, þ.e. ef einhverjar breytingar verða á miðju ári sem ekki næst inn í hin hefðbundnu fjárlög. Það endurspeglar kannski það að við vísuðum 25 millj. kr., sem sneru að launamálum og vörðuðu Þjóðleikhúsið, til baka í þann sjóð þar sem okkur fannst það klárlega eiga heima þar. Það er alveg rétt og við þekkjum þá gagnrýni að ríkisstjórnir á hverjum tíma hafa leitað í þennan farveg til að stækka sinn ramma. Það dylst okkur ekki neitt. Ég held að við, a.m.k. við sem skipum meiri hlutann, höfum sent okkar fólki skýr skilaboð um að við erum ekki til í það og þess vegna segi ég: Þetta er auðvitað í litlum mæli, það sem við erum hér að fjalla um í þessu máli, en það er þó enn til staðar.

Þess vegna þurfum við að ítreka okkar kröfur og auðvitað vonumst við til þess að núna þegar að okkar fólk er komið svona vel inn í málin, myndi ég ætla á þessum tíma, ætti ríkisfjármálaáætlun, sem er verið að byrja að endurskoða, eins og vera ber og í framhaldinu af því, svo og fjárlög og annað slíkt, að endurspegla það að fólk er farið að átta sig á þeim málaflokki sem það er með í höndunum.

Fyrsta árið fer væntanlega hjá mjög mörgum, sem hafa a.m.k. ekki setið í viðkomandi ráðuneyti, í að læra. Það er ekkert óeðlilegt við það, tel ég. Við þekkjum það sjálf á störfum okkar í þinginu að við erum tíma að átta okkur á einu og öðru. Ég held, eða held ekkert, ég veit það bara, að við höfum sent þessi skýru skilaboð.

Það breytir því ekki, eins og ég segi, að við erum þó með fjáraukalög þar sem talað er um að fjárheimildir verði auknar um tæpa 57 milljarða. Og eins og hér segir, að það sé mikið í sögulegu samhengi. Þá er bent á, sem er kannski stærst þar inni, 49 milljarða sem tengjast breytingum á framsetningu sem ég nefndi hér í upphafi, hvernig við gerum upp, sem við þurfum að kljást við að reyna að skilja og meta á milli ára af því að við höfum ekki staðið beinlínis frammi fyrir því áður. Stærsti hlutinn þar undir er auðvitað vegna lífeyrisskuldbindinga og annarra slíkra hluta.

Þær breytingar hafa ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs, enda er þetta fyrst og fremst framsetning þar sem í 1. gr. er afkoman mæld samkvæmt hagskýrslustaðli, en breyta 3. gr. þar sem fjárheimildir málefnasviða og málaflokka eru settar fram samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastaðli, IPSAS. Þetta er eitthvað sem við í fjárlaganefnd erum enn einhvern veginn að reyna að læra að átta okkur á og reyna að greina mun á. Þetta virkar því ábyggilega eins og latína fyrir þá sem ekki hana kunna, held ég. Fyrir utan þetta er verið að gera breytingar upp á tæpa 9 milljarða til hækkunar á útgjaldaheimildum og það eru lífeyrisskuldbindingar í samræmi við samning við Bændasamtökin og svo er líka yfirtaka á slíkum skuldbindingum varðandi samtök í heilbrigðisþjónustu og síðan er líka nokkrar millifærslur, tæknilegar millifærslur fjárheimilda af ýmsum toga.

Hér er talað um að þetta sé með því lægsta sem verið hefur, þ.e. þessi frávik í hlutfalli af fjárlögum síðan 2013. Ég man það reyndar ekki, en það kom fram í andsvari áðan að þetta sé í kringum 0,7%, en fram kom hjá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni að þetta væri svipað og 2009–2016 ef tekin væru inn vaxtagjöld, var það ekki? (Gripið fram í: Varasjóðurinn.) — varasjóðurinn, segi ég. Ég veit ekki hvernig það var á þeim tíma, á þeim árum, hvernig þetta var sett fram, hvort eitthvað var undanskilið. Ég játa það bara að ég er ekki alveg með það á hreinu, þ.e. hvort við erum örugglega að bera saman appelsínu og appelsínu, eða ekki. Það breytir því þó ekki að þetta hefur auðvitað farið lækkandi eins og stefnt er að. Þetta var alltaf í kringum 5%, sem er ansi mikið.

Síðan er í nefndaráliti meiri hlutans farið aðeins yfir endurmat á afkomu ríkissjóðs. Það er í frumvarpinu líka, þó að það sé kannski ekki hefðbundið, þá er ágætt að gera grein fyrir því þegar nýjar tölur liggja fyrir. Og ný þjóðhagsspá kom fram. Það var m.a. ástæðan fyrir því að við þurftum að lagfæra fjárlagafrumvarpið og þá er ágætt að það sé rakið hér líka. Þar er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs verði ríflega 4 milljörðum hærri en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum yfirstandandi árs og hins vegar lækka tekjur af virðisaukaskatti um tæpa 6 milljarða. Það eru líklega einhverjir þættir þar sem spila inn í, m.a. tíðar ferðir Íslendinga til útlanda til að versla og svo hægari fjölgun ferðamanna eða þeir eyða minna hjá okkur en þeir gerðu áður.

Síðan er talað um veigamesta frávikið í hærri arðgreiðslum frá Íslandsbanka og Landsbankanum upp á 7,5 milljarða. Ég hef gagnrýnt þetta á hverju einasta ári að ekki virðist hafa verið vilji til að áætla arðgreiðslur miðað við hvernig þær hafa verið á undanförnum árum, en þær reynast alltaf hærri. Það er svo sem skárra en hitt, en samt, ég fellst ekki endilega á að mjög erfitt sé að áætla það, ef við horfum á eitthvert viðmið undanfarinna X ára. Auðvitað þarf að passa að skjóta ekki yfir markið í því. Ég held að hægt sé að gera þetta nákvæmar.

Síðan er farið aðeins yfir vinnu okkar í nefndinni. Ég vil þakka öllu starfsfólkinu á nefndasviði og riturunum okkar fyrir góða vinnu. Við gáfum þeim lítinn tíma til að fá svör við því sem óskað var eftir varðandi það sem er í frumvarpinu og vil nefna fjármálastjóra ráðuneytanna, að þeir brugðust fljótt við og svöruðu okkur. Það var samt sem áður lítill tími sem fór í þetta. Þetta fólk er að vinna alveg einstaka vinnu, því að svo eru jú auðvitað öll nefndarálitin og allt annað sem þarf að fara yfir, gera og græja. Verður að segjast eins og er að starfsfólkið er alveg einstaklega liðlegt við að aðstoða okkur í þessu.

Við komum líka inn á og ræddum í dag stöðu Íslandspósts. Lögð er til 500 millj. kr. heimild til endurláns sem er hluti af þeim 1.500 milljónum sem við ræddum um daginn. Síðan erum við með aðrar breytingartillögur sem að samanlögðu leiða til tæplega 250 millj. kr. hækkunar á gjaldaheimildum. 300 millj. kr. eru í greiðsluþátttökukerfi sjúkratryggðra vegna heilbrigðisþjónustu og það er auðvitað mjög jákvætt.

Fram kemur hvers vegna þetta er og fellur margt þarna undir og hér hefur verið rakið til hvers það hefur leitt. Það er sparnaður annars staðar í okkar opinbera kerfi, sjúkraþjálfun hefur leitt það af sér að fólk kemur til starfa aftur við betri heilsu, hefur skilað sér í færri örorkutilfellum. Sá kostnaður endurspeglast í því og kemur væntanlega til baka þegar fólk er orðið starfhæft. Ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum svo að gæta að og ég tel að þetta eigi að vera fjármagnað núna í fjárlögunum sem við vorum að samþykkja. Það má kannski segja að þrátt fyrir að stórar fjárhæðir hafi verið settar inn í greiðsluþátttökukerfið, þá hlýtur það bara að vera ánægjulegt að fólk nýtir sér það sem í boði er til að ná heilsu.

Svo gleymdist að gera ráð fyrir því — þetta er svona dæmi um þegar fólk kemur inn í ráðuneyti sem það þekkir ekki og fer að búa til eitthvert kerfi að eitthvað gleymist þegar lögin voru sett um greiðsluþátttökukerfið, þ.e. sjúkrastofnanirnar höfðu haft sértekjur og átti að bæta þeim þær. Þær áttu auðvitað ekki að tapa þeim tekjum og það er partur af því hér inni sem er verið að bæta upp, um 390 milljónir. Þarna erum við bara að passa upp á kerfið okkar, að það geti haldið áfram að virka í þágu þeirra sem þurfa á því að halda.

Síðan erum við með tillögu um aukafjárveitingu til Alþingis, viðgerð á húsnæðinu Kirkjustræti 10, enn eitt mygluverkið sem við okkur hefur blasað. Við sem höfum starfað og haft aðstöðu í kringum Austurvöllinn höfum, held ég, allt of mörg lent í því að húsnæði er víða mjög illa farið og virðist einhvern veginn alltaf verða stærra verkefni þegar á reynir þegar búið er að opna það. Það reyndist vera þar. Þetta eru miklar fjárhæðir og manni finnst auðvitað alltaf svolítið skrýtið þegar fagaðilar eru fengnir til að meta verk að það skeiki svo miklu sem hér er undir. Svo hefur maður kannski ekki vit til að segja að þetta geti ekki verið svo, hafi ekki þekkingu til þess. Við leituðum auðvitað eftir svörum við þessu.

Síðan verð ég að koma inn á Algalíf, sem er auðvitað ein af stóru tölunum í þessu upp á tæplega 138 milljónir. Sá fjárfestingarsamningur sem var gerður af hálfu ríkisstjórnarinnar árið 2014 þar sem var verið að þjálfa starfsfólk og var í rauninni ekki samkvæmt því sem ráðuneytið segir, að þá voru til gögn til að þeir teldu sér fært að greiða út þennan styrk, en þau lágu mjög seint fyrir og ekki áður en fjárlög þess árs voru sett. Það var því ekki fyrr en í byrjun desember þar sem þeir töldu sig vera með nægilega góð rök í höndunum til að geta gert þetta upp og það er ástæðan fyrir því að það lendir hér. Það má svo sem segja í sjálfu sér að það var ófyrirséð því að það lá ekki endilega fyrir að það myndi leysast á þessu ári frekar en því næsta.

Síðan erum við með Úrvinnslusjóðinn. Það var eitt af því sem ég man eftir þegar við vorum að ræða um markaðar tekjur. Ég varaði við að svona hlutir myndu koma inn sem gleymdust. Við bættum inn Lýðheilsusjóði í fjárlögin milli umræðna. Það var svipað þar, einhvern veginn varð að árétta það. Breyta þarf lögum til að laga þetta þannig að þeir fjármunir sem eru klárlega komnir til og eiga að fara þangað og standa undir ákveðnum rekstri, að þeir fari þangað.

Í lokin, virðulegi forseti, langar mig að nefna Stofnun Árna Magnússonar. Það er auðvitað dýrt, allt sem lýtur að handritum og öðru slíku. Við á Íslandi erum kannski ekki vön slíkri öryggisgæslu um alla skapaða hluti eins og aðrar þjóðir, en Danir gerðu kröfu um mun meiri öryggisgæslu en okkur hafði eiginlega órað fyrir, af því að það er kannski ekki í okkar anda og það kostaði auðvitað peninga sem hér er verið að reyna að bæta.

Hér var aðeins minnst á Tryggingastofnun og að það væri ekki óvænt. Mér finnst textinn lýsa því ágætlega í frumvarpinu að kannski var verið að flytja fyrr en gert hafði verið ráð fyrir og með meiri hraða. Þegar húsnæði er orðið þetta heilsuspillandi reiknar fólk það kannski ekki allt til enda, eins og með búnað og annað slíkt sem ekki er hægt að flytja með þegar búið er að búa við myglu mjög lengi. Ekki var gert ráð fyrir því. Það er líka eitt af því sem hinn almenni borgari hefur kannski ekki endilega þekkingu á. Það er því breyting gerð á þessu.

Síðan ætla ég að lokum að segja að fjárveitingum verður varið til að greiða laun sérfræðings á aðalskrifstofu velferðarráðuneytisins en einnig verður eftirtöldum aðilum veitt framlög; Kvenréttindaráði Íslands vegna fræðslu- og upplýsingastarfa um jafnrétti kynjanna, Samtökum kvenna í atvinnurekstri fyrir jafnvægisvogina og Staðlaráði vegna jafnlaunastaðals, sem ég held að sé afskaplega mikilvægt að standa við og gera.