149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[19:12]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka andsvarið og hugleiðingarnar. Jú, ég er svo sannarlega sammála því að það er mjög mikilvægt að það sé frjór jarðvegur og alls konar bækur og ég tek undir það að maður veit ekki hvað góð bók er ef maður hefur aldrei lesið vonda, þá heldur maður bara að allar bækur séu svona og áttar sig ekki á því að þær eru misgóðar.

Ég held að það sé hægt að ná þessum markmiðum jafnvel þó að menn færu aðra leið en farin er í frumvarpinu. Eins og við vitum erum við mjög dugleg að gefa út bækur. Nú er ég ekki að tala um fjöldann heldur að það er mikil gróska, frjósamur akur, það sprettur upp af honum. Ég ber kannski ekki alveg þann sama ugg í brjósti að þetta sé allt að lognast út af eða muni lognast út af ef ekki verður gripið til almennra aðgerða sem taka alla þá sem gefa út eða semja verk einhvern veginn í fangið. Ég held ekki. En aðalatriðið finnst mér, svo ég ítreki það, að bækurnar séu eins aðgengilegar og hægt er, það er held ég besti stuðningurinn á endanum að við getum haft þær aðgengilegar — þar spila að sjálfsögðu líka inn í bókaverslanir, verð á bókum, ég geri mér alveg grein fyrir því — en að sérstaklega yngra fólk geti alist upp við að hafa bækur a.m.k. í skólanum sínum.