149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[19:14]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að við séum komin á þann stað að ræða um nefndarálit um frumvarp til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir greinargóða og vandaða yfirferð yfir málið og framsetningu á því öllu saman. Málið er afleiðing af því að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mælti fyrir stjórnarfrumvarpi um stuðning við útgáfu bóka á okkar ástkæra ylhýra máli. Með því er lagt til að komið verði á fót stuðningskerfi sem heimilar endurgreiðslu af beinum kostnaði við útgáfu bóka á íslensku á prenti og á rafrænu formi. Þannig er á sama tíma lagt kapp á að halda í það sem er gott og gamalt, en líka að koma til móts við nýja tíma og tækni. Það er gríðarlega mikilvægt því að heimurinn breytist hratt. Við lifum ekki lengur á gervihnattaöld — á hvaða öld lifum við? Jú, það eru miklar tækniframfarir og mikið áreiti í veröldinni.

Helstu markmiðin eru, eins og fram hefur komið, að styðja við og efla útgáfu bóka á íslensku í því skyni að vernda íslenskt mál sem á undir högg að sækja ásamt því að efla læsi. Þann 5. október sl. rituðu forsætisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra undir viljayfirlýsingu um vitundarvakningu um mikilvægi íslensks máls ásamt fulltrúum Kennarasambands Íslands, Háskóla Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla. Samkvæmt yfirlýsingunni verður lögð áhersla á að finna víðtækan samstarfsgrundvöll til að vekja athygli og áhuga á íslensku, stuðla að virkri notkun tungumálsins og vinna að jákvæðara viðhorfi, ekki síst barna og unglinga, til íslenskrar tungu. Við það tilefni kom fram hjá mennta- og menningarmálaráðherra að samstarfið væri mikilvægt til að snúa vörn í sókn fyrir íslenska tungu og að dæmi um skref sem stigin yrðu á þessari vegferð væru aðgerðir til að styðja við útgáfu bóka á íslensku.

Þetta er mál sem hefur verið okkur Framsóknarmönnum mikið hjartans mál og baráttumál og þess vegna er fögnuður í brjóstum okkar yfir því að þetta skuli vera komið hingað.

Það verður að segjast eins og er að einhverjir hafa spáð dauða íslenskrar tungu, svo alvarlega hafa menn litið það mál, eða að hún muni alla vega ekki lifa mjög mikið lengur. Sú staða er uppi í breyttum heimi, óbreyttu umhverfi. Íslensk börn alast að miklu leyti upp í ensku umhverfi. Það er orðið einfalt að fara á netið. Kornung börn og ómálga kunna að nálgast snjalltæki, ná sér í myndbönd á YouTube og Netflix og annað slíkt og standa þeim fullorðnu oft miklu framar í þeim aðgerðum. Það er allt önnur veröld sem við lifum í en áður og mörg börn sem eru að byrja að læra ensku í grunnskóla, eða flestöll, eru svokallaðir falskir byrjendur. Þau eru engir byrjendur á því sviði og eru að hefja nám á allt öðrum forsendum en við sem eldri erum sem ólumst upp við línulega dagskrá í sjónvarpi, ef hún var þá til staðar. Ég get sagt sögur af því úr minni heimabyggð og af mínum börnum, hvað þau ólust upp við. Mörgum virðist það vera í óralangri fjarlægð en það get ég ekki viðurkennt, ekki eldri en ég er.

Þetta er alvarlegt mál. Gerðar hafa verið rannsóknir á þessu. Vísa má til rannsóknar sem fremstu máltæknisérfræðingar í Evrópu gerðu. Að henni komu 200 sérfræðingar á 60 rannsóknarsetrum. Þá komu fram vísbendingar um að flest Evrópumál, þar á meðal íslenska, eigi á hættu stafrænan dauða og séu í útrýmingarhættu á stafrænni öld. Við þurfum að vera vel meðvituð um þetta af því að við ætlum, eins og við höfum lýst yfir og fram kemur í stjórnarsáttmála, að efla íslenska tungu; það er ætlun ríkisstjórnarinnar.

Ég vil víkja að því aftur, líkt og hv. þm. Willum Þór Þórsson gerði, að samhliða þessu frumvarpi hefur hæstv. menntamálaráðherra lagt fram þingsályktunartillögu um að efla íslenska tungu. Hún felur m.a. í sér að allir eigi að eiga kost á því að læra íslensku. Það fellur allt mjög vel saman í þessari aðgerðaáætlun. Sú hugsun að efla eigi íslensku á öllum skólastigum held ég að sé gríðarlega mikilvæg. Þessi aðgerðaáætlun er til vitundarvakningar en hún hefur yfirskriftina „Áfram íslenska“. Það er mjög jákvætt að við skulum vera komin á þennan stað með það.

Það hafa verið mjög skemmtilegar umræður um bækur og bókaútgáfu hér á Íslandi. Við erum alin upp við það, Íslendingar, við sem erum hér inni, að tala um svokallað jólabókaflóð. Það er séríslenskt, skilst mér. Í öðrum samfélögum eru til jólakjólar og jólamatur en íslensku jólasveinarnir og jólabókaflóðið og laufabrauðið myndu teljast nokkuð vel íslenskt. Ég held að það sé gott að halda í þetta.

Mér fannst athyglisvert að heyra menn tala um að til væru of margar bækur. Það hlýtur alltaf að vera smekksatriði eða matsatriði. Ég get þó tekið undir það að mikilvægt er að aðgengi að bókum sé raunverulegt og mikið. En þá þurfum við líka að horfa á það hvers lags fyrirmyndir við erum. Barn sem sér aldrei fullorðna manneskju taka sér bók í hönd og lesa er ekki líklegt til þess að gera það sjálft. Það er í okkar höndum, okkar fullorðna fólksins, að opna þessa veröld fyrir börnum. Oft hef ég hugsað með mér: Mikið skelfing finn ég til með fólki sem þekkir ekki þá tilfinningu að sökkva sér ofan í bók og hverfa inn í heim hennar. En ég er hrædd um að það séu að verða sífellt fleiri sem aldrei hafa upplifað þá ánægju og gleði sem það veitir okkur.

Það eru vissulega til bókasöfn. Þau eru misjöfn eftir sveitarfélögum. Ég held að þau nýtist betur þar sem þau eru tengd skólunum eða öðrum stofnunum sem fólk á erindi í. Nú er ég bara að varpa þessu fram sem spekúlasjónum hjá mér. Ég hef ekki gert rannsókn á þessu. En það hlýtur að vera eitthvert samhengi á milli sýnileika og aðgengis að bókum. Ég get því tekið undir það hjá hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni, en ég treysti mér ekki að meta hvort til eru of margar bækur eða hvað. Það er vissulega mikil vinna að þurrka af bókum og hreinsa bókageymslur en það getur líka verið skemmtilegt. Maður getur rifjað upp margt og gripið bók og gleymt sér í því frá leiðinlegra verki. En það er nú önnur saga sem við þurfum ekki að fara út í hér.

Varðandi íslenskuna og mikilvægi hennar langar mig til að minnast á að ég held að það sé margt ágætt að gerast. Það voru gríðarlega skemmtilegir þættir í ríkissjónvarpinu um íslensku; áhugaverð nálgun og uppbyggilegir og góðir þættir. Það er vel. Svo er annað sem er að gerast í tónlistinni, það er rapptónlistin, menn eru farnir að rappa á íslensku. Það er orðin list að finna út taktinn í því, hvernig það er flutt og borið fram. Ég held að það sé gott, það er jákvætt skref og við eigum að hvetja ungmennin í það.

Ég ætlaði aðallega að tala um það hvað ég er glöð í mínu hjarta að þetta mál skuli vera komið á þetta stig. Sú leið sem er borin fram hér er afrakstur þess að hópur fólks kom saman og vann að því og talaði sig niður á þessa leið. Það er langt síðan fyrst var farið að tala um að taka virðisaukaskatt af bókum. Um daginn tók ég fram bók sem ég hafði gefið tengdamóðir minni um 1990. Inni í henni var bókamerki frá íslenskum bókaútgefendum sem á stóð: Afnemum virðisaukaskatt á bókum. Þannig að þetta er ekki alveg nýtt og gæti jafnvel verið eldra mál en það.

Það er full ástæða til að fagna þessum aðgerðum í þágu íslenskra bókmennta. Áhrif frumvarpsins koma m.a. fram í auknu framboði bóka og lægra verði til neytenda. Með því að styrkja rekstrargrundvöll útgáfufyrirtækja er lagður grunnur að öflugri útgáfustarfsemi sem aftur er rithöfundum mikilvægur og nauðsynlegur farvegur til að koma verkum á framfæri. Það segir sig sjálft. Þá munu neytendur njóta góðs af með fjölbreyttu efni, vonandi á lægra verði og í aðgengilegra formi í sumum tilfellum, eins og margoft hefur verið vikið að hér.

Sem kennari hef ég beitt ýmsum leiðum til að auka lestur og auka áhuga á lestri. Í sumum kreðsum hefur fólk verið töluvert upptekið af því hvað eru góðar bækur og hvað eru lakari bækur eða að sérstök tegund af bókum sé betri en aðrar. Ég vil ekki líta þannig á málin, þetta þarf allt að vera til. Eins og ágætur þingmaður orðaði það: Þú þarft líka að lesa lakari bók til að vita hvenær þú ert með gott efni í höndunum. Á mínum gamla vinnustað var gerð tilraun og ég dró fram bókaflokka sem ekki voru hátt skrifaðir. Þá kviknaði áhugi hjá ákveðnum nemendum og þeir byrjuðu að lesa. Við þurfum stundum að finna rétta staðinn og réttu stundina og þá er það ekki alltaf það sem blasir fyrst við. Við þurfum að leggja okkur fram í þessu.

Frumvarpið er liður í eflingu íslensku sem svo er liður í eflingu læsis. Á síðustu 10 árum hefur bóksala á Íslandi dregist saman um 36%. Það er áhyggjuefni. Við þurfum að gæta að þessum málum. Til að mæta þeirri gríðarlegu samkeppni sem afþreyingarefni á hinum ýmsu tungumálum veitir þurfa íslensk ungmenni að geta nálgast áhugavert og skemmtilegt lesefni á íslensku. Með því að stuðla að auknum lestri og efla þannig læsi stuðlum við að menntun fyrir alla. Læs þjóð mun ná lengra þegar kemur að því að byggja hér upp hugverkadrifið hagkerfi.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem hafa unnið að þessu mikilvæga og góða máli og lýsa því yfir að ég styð það heils hugar. Hér stendur að gera eigi úttekt á þessu. Þetta á að gilda til ársins 2023 og gera á úttekt í lok árs 2022. Það verður spennandi að sjá niðurstöðuna úr því. Vonandi erum við komin á rétta leið og rétta braut sem ég trúi fyllilega, við erum að gera góða hluti. Ég fagna þessu og lýsi heils hugar yfir stuðningi við þetta mál.