149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[19:57]
Horfa

Snæbjörn Brynjarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð eiginlega að andmæla því sem kom fram í máli hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur um að það sé eitthvað flókið eða erfitt að afnema virðisaukaskattinn. Það er bara staðreynd að ýmiss konar menningarstarfsemi er undanþegin virðisaukaskatti og jafnvel er ýmiss konar starfsemi sem er ekki menningartengd undanþegin honum líka. Aðrar nágrannaþjóðir okkar hafa farið þá leið. Hún er langeinföldust og langskilvirkust. Þess vegna er svolítið kaldhæðnislegt að heyra þetta komandi frá hægri kantinum að fara þessa leið, því að þetta fyrirkomulag felur í rauninni í sér að skapa einhvers konar bákn. Við erum að fara í einhverja nefnd sem verður á launum við að fara í og spá í hvað á að endurgreiða og hvað á ekki að greiða, allt of flókið. Langeinfaldasta leiðin er 0% virðisaukaskattur. Það er ekki flókið. Það er mjög einfalt.