149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[20:16]
Horfa

Snæbjörn Brynjarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á að lengja umræðuna, mig langar reyndar pínulítið í snitsel, það er ekki það. En mér finnst ég knúinn til að bæta við nokkrum hlutum og vil ekki vera lengi að því. Mig langar að þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir greinargóða ræðu þar sem hann fór vel yfir þetta og að mörgu leyti hef ég mikinn skilning á því að þessi leið sé farin þótt það sé röng leið. Kannski er hún farin af einhverju kjarkleysi, ég veit ekki hvar kjarkleysið liggur, en einhvers staðar er það. Það sem ég legg til er augljóslega það rétta í stöðunni og það sér hver maður.

Mig langar hins vegar að nefna að mér finnst óþarflega mikill fókus á tungumálið. Við getum alveg haft íslenska myndskreytingu svolítið í huga. Menning okkar er líka myndræn, í barnabókum er hún oft myndræn. Ég held að það sé engin sérstaklega góð ástæða til að undanskilja myndabækur handa börnum í þessu. Hvers vegna ættum við ekki að styðja við framleiðslu á slíku? Það er svolítið sorgleg staðreynd að íslenskir myndskreytar eru oft lítið notaðir, erlendir eru ráðnir af því að þeir kosta minna. Kannski er þetta eitt af því sem frumvarpið á eftir að ráða smá bót á, en samt er vert að hafa það í huga. Það er engin sérstaklega góða ástæða til að undanskilja hina myndrænu hlið menningar okkar, jafnvel þótt vissulega sé ekki verið að framleiða nein orð fyrir suma aldurshópa.

Svo langar mig líka að nýta tækifærið og koma þökkum til Haraldar Hrafns Guðmundssonar sem gaf út nýverið þýðingu á sögunum um Batman og þýddi það sem Blakan. Það er mjög gott framtak hjá þeim í Nexus að gefa það út því að vissulega er alveg rétt að íslensk ungmenni lesa mikið af myndasögum. Mikið er til á netinu. Við getum líka skoðað það hvort hægt sé að gera íslenskar myndasögur aðgengilegar á netinu í meira magni með einhverju móti, ef markmiðið er bara að ýta undir lestur ungmenna er það mjög góð og örugglega ódýr leið. En þýðingin er vissulega frábært framtak. Við ættum virkilega að styðja við myndasöguframleiðslu. Ef markmiðið er aukinn lestur ungmenna er það eitthvað sem við ættum virkilega að gera.