149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[20:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég kem upp í andsvar við hv. þingmann, þótt ég viti ekki hvort orðum hans var beint til mín eitthvað frekar en annarra sem hér hafa talað í kvöld, er að ég vildi aðeins ræða um tungumálið. Í mínum huga snýst það ekki um hinn ritaða bókstaf, ef svo má segja, þegar kemur að þessu máli. Ég held að myndabækur og teiknimyndasögur séu líka gríðarlega vel til þess fallnar að efla tungumálið og alveg sérstaklega þegar kemur að yngstu kynslóðinni. Þetta snýst ekki bara um að lesa stafi á blaði heldur er lestur í mínum huga miklu meira og fjölbreyttari en það. Lestur á myndmáli er alveg gríðarlega mikilvægur og börn efla málþroska sinn með því að skoða myndabækur, segja frá myndum og eiga samtal við aðra um myndir. Mér finnst því mikilvægt að halda því til haga að læsi er alveg ofboðslega margt og við eflum tungumálið með fjölbreyttum hætti, m.a. með því að skoða myndabækur.