149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[20:30]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi (ýmsar breytingar). Þetta er stjórnarfrumvarp frá dómsmálaráðherra og nefndarálitið er á þskj. 725.

Meginefni frumvarpsins felur í sér nauðsynlegar breytingar sem gera þarf á lögum um útlendinga og lögum um Schengen-upplýsingakerfið. Hér er þó ekki um veigamiklar efnislegar breytingar að ræða. Frumvarpinu er einkum ætlað að lagfæra orðalag og tilvísanir til lagaákvæða, skýra einstök ákvæði sem hafa þótt óljós eða ófullnægjandi og gera málsmeðferð hjá kærunefnd útlendingamála og við boðun umsækjenda um vernd í viðtal hjá Útlendingastofnun skilvirkari. Þá eru jafnframt með hagsmuni barna að leiðarljósi víkkaðar heimildir stjórnvalda til vinnslu persónuupplýsinga og samkeyrslu. Þá eru jafnframt lagfærðar tilvísanir í ákvæði laga um útlendinga í lögum um Schengen-upplýsingakerfið og tollgæsluyfirvöldum veitt heimild til að hafa beinlínutengdan aðgang að kerfinu.

Til nánari upplýsingar um efni frumvarpsins má vísa til skýringa við einstakar greinar þess.

Með þessu frumvarpi eru sem sagt lagðar til breytingar á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, sem tóku gildi 1. janúar 2017, sem eru nauðsynlegar til að framkvæmd þeirra og málsmeðferð mála sem undir þau falla sé skýr og gagnsæ. Þá eru jafnframt víkkaðar heimildir stjórnvalda til vinnslu persónuupplýsinga og samkeyrslu. Að lokum er samhliða lagt til að tilvísanir í lögum um Schengen-upplýsingakerfið, nr. 16/2000, verði lagfærðar og tollgæsluyfirvöldum veitt heimild til að hafa beinlínutengdan aðgang að kerfinu.

Nefndin fékk til sín fjölda gesta út af þessu máli og umsagnir bárust frá Barnaverndarstofu, Elínborgu Hörpu Önundardóttur og Rán Þórisdóttur, kærunefnd útlendingamála, Persónuvernd, Rauða krossinum á Íslandi, umboðsmanni barna og Útlendingastofnun.

Á fundum nefndarinnar um málið var sérstaklega rætt um þau ákvæði frumvarpsins sem varða tillögur um rýmkun heimilda formanns og varaformanns til að úrskurða einir í málum, vinnslu persónuupplýsinga, boðanir í viðtöl fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, rýmkun reglugerðarheimildar ráðherra, aðgang tollgæsluyfirvalda að Schengen-upplýsingakerfinu og lagaskil. Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að við breytingar á lögunum sem snerta umsækjendur um alþjóðlega vernd þurfi að gæta þess að talsmenn hagsmuna þeirra taki þátt í samráðsferli við undirbúning málsins. Tekur meiri hluti nefndarinnar undir það.

Varðandi gildistökuna kom á fundum nefndarinnar fram það sjónarmið að gæta yrði lagaskila og að tekinn yrði af allur vafi um að frumvarpið gildi ekki afturvirkt um umsóknir samkvæmt 3. og 4. gr. og a-lið 6. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn telur að lagaskil fari eftir almennum viðmiðum og að mati hans er ekki ástæða til að breyta gildistökuákvæðinu.

Meiri hlutinn leggur sem sagt til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Við b-lið 2. gr. bætist: kærunefnd útlendingamála og lögreglu við framkvæmd ákvarðana samkvæmt lögum um útlendinga.

2. Við 4. gr.:

a. Við 2. málsl. efnismálsgreinar a-liðar bætist: eða á grundvelli dvalar án áritunar.

b. Í stað orðanna „lengri heimild til“ í 3. málsl. efnismálsgreinar a-liðar komi: heimild til lengri.

c. Í stað orðanna „stjórnvaldsákvarðana á beitingu undanþága“ í b-lið komi: dvalar umsækjanda hér á landi á beitingu undanþáguheimilda.

3. 1. efnismgr. 8. gr. orðist svo:

Lögreglustjóri tekur ákvörðun um frávísun við komu til landsins skv. a–j lið 1. mgr. 106. gr. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um frávísun eftir komu til landsins og aðrar ákvarðanir samkvæmt kafla þessum.

Undir þetta nefndarálit rita Páll Magnússon, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Ármannsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Willum Þór Þórsson.