149. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[15:54]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegur forseti. Rétt eins og ég rakti í framsögu við upphaf 3. umr. um fjáraukalagafrumvarpið, sem við greiðum hér atkvæði um og greiðum atkvæði um breytingartillögu sem ég styð ekki, rakti ég það rækilega að við höfum farið í aðgerðir til að bæta rekstrargrunn heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Samkvæmt upplýsingum sem lágu fyrir í fjárlaganefnd í dag fer um hálfur milljarður í hallarekstur á öllum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Það eru mikil vonbrigði eftir þær aðgerðir sem við fórum í fyrir ári og við bregðumst ekki við því með inngripi með þeim hætti sem hér er lagt til í dag. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim rökum sem fyrir því eru færð. Það verður fært í bækur að ég skil þau rök og ég geri ekki lítið úr þeim, en við göngum til þess verks að ná betur utan um þetta verkefni. Það hefur áður þurft að gera. Það þarf vandaðan undirbúning og við munum gera það.