149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:56]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað allt of mikið sagt að lífið sé handbolti þó að stundum finnist okkur það. En kannski mætti samt líkja stjórnmálunum við handboltann þar sem lið takast á og skiptast á um að vera í sókn og vörn. Í stjórnmálunum takast þau á sem hugsa um samfélagið út frá almannahag og svo hin sem gæta sérhagsmuna. Þau takast á sem telja réttlátt og sanngjarnt og hagkvæmt að jöfnuður í samfélaginu sé sem mestur og svo hin sem telja réttlætið ekki borga sig. Þau takast á sem líta á íslenska náttúru sem hráefni og vettvang fyrir iðnað og mengandi stóriðju og svo hin sem telja að ósnortin náttúra sé verðmæti í sjálfu sér, verðmæti fyrir okkur mannfólkið og jafnvel þjóðarbúið og að þau verðmæti beri að vernda. Þar takast á þau sem telja loftslagsmálin brýnasta úrlausnarefni okkar tíma, því að framtíð lífs á jörðinni sé í húfi, og svo hin sem vilja láta reka á reiðanum. Þar takast á þau sem fagna fjölbreytni mannlífsins og vilja tengjast ólíkum þjóðum og menningarstraumum og svo hin sem aðhyllast einangrun og óttast hið ókomna.

Vissulega getur verið erfitt að greina á milli í kraðakinu. Hver er eiginlega hvað og hvað er hvurs og hver er ekki hvað? Hvar er boltinn eiginlega? Það er samt svo að í stjórnmálunum takast á tvær meginfylkingar. Núverandi ríkisstjórn er mynduð þvert á þessar fylkingar og þar með er hún mynduð um það sem þessir flokkar geta komið sér saman um. Værum við stödd í handboltaleik má líkja því við að nokkrir burðarásar í öðru liðinu gangi skyndilega og í miðjum leik til liðs við hitt liðið.

Virðulegi forseti. Síðasta ár var gott og hagfellt að ýmsu leyti en því miður þykir okkur jafnaðarmönnum sem tækifærin hafi ekki verið nægilega vel nýtt á toppi hagsveiflunnar. Fólk með lágar tekjur og millitekjufólk fékk ekki að njóta þessa góðæris og ekki heldur sá mikli fjöldi aðkomufólks með sínar vinnufúsu hendur sem hefur skipt sköpum fyrir efnahagslegan uppgang sem hér hefur verið á flestum sviðum.

Með leyfi forseta ætla ég að lesa hér nokkrar fyrirsagnir úr nokkrum fjölmiðlum frá árinu 2018 sem ég held að varpi vissu ljósi á forgangsröðun ríkisstjórnarinnar:

Ljósmæður að bugast. Fjármálaáætlun ávísun á fátækt og eymd. Börn bíða í níu mánuði eftir sálfræðiþjónustu á Suðurlandi. Öryrkjar í hart gegn Tryggingastofnun og ríkinu. Vaxtabætur lækka áfram. Óviðunandi húsnæðisástand á Íslandi. Skattbyrði tekjulægstu hefur aukist langmest á Íslandi. Segja ríkisstjórnina hafa svikið loforð um eflingu háskólastigsins. Veiðigjöld lækka um milljarða.

Svona gæti ég, virðulegi forseti, haldið lengi áfram en verstu fréttirnar eru þó ekki endilega í fyrirsögnum. Þær finnast alls ekki því að þær eru fólgnar í sjálfu fréttaleysinu, þ.e. aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í ótal brýnum úrlausnarmálum. Hún hefur verið þeim mun duglegri að búa til aðgerðaáætlanir og mynda starfshópa um aðgerðaáætlanir því að þetta er ríkisstjórn sem er mynduð til viðhalds ríkjandi ástandi sem hún kallar sjálf stöðugleika. Þetta er ríkisstjórn íhaldssemi og kyrrstöðu, ríkisstjórn sem vill varðveislu um hagsmuni og kerfi sem hafa verið þróuð og langræktuð af stærsta flokknum í þessari ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokknum.

Virðulegi forseti. Stefnu stjórnvalda mætti kenna við heljarþrömina, að halda öllu og öllum ævinlega á heljarþröm þannig að reksturinn sé alltaf í járnum og aldrei hægt að búa í haginn. Stofnanir eru alltaf á heljarþröm í rekstri sínum, jafnt skólar sem sjúkrahús. Öryrkjar skulu alltaf vera á heljarþröm. Leyfi þeir sér að afla tekna eru bætur snarlega lækkaðar til samræmis svo að tryggt sé að viðkomandi nái aldrei alveg að búa við sómasamleg kjör — heldur sé á heljarþröm.

Hið sama gildir um gamalt fólk sem er svo ósvífið að afla sér tekna á vinnumarkaði, ellilífeyririnn er snarlega skorinn niður svo að þetta fólk haldist áreiðanlega á heljarþröm.

Fjölskyldufólk er svo sannarlega salt jarðar og undirstaðan í farsælu samfélagi en stundum er eins og allt samfélagið sé sett á herðarnar á því fólki á sama tíma og það ætti að vera að einbeita sér að því að ala upp börnin sín. Barnafólk þarf að vinna hörðum höndum til að hafa í sig og á og standa undir stórfelldum kostnaði við þau lágmarksréttindi að hafa þak yfir höfuðið, eiga heimili. Það þarf að borga námslánin, það þarf að borga matinn sem er óhóflega dýr hér vegna krónu- og vöruverndar. Það þarf að borga virðisaukaskattinn á nauðsynjavörur, það þarf að borga tómstundastarfið og heimsóknir til lækna og skóladótið og allt hitt sem fylgir blessuðum börnunum. Það þarf að borga af láninu af bílunum til að komast á milli með börnin og sig. Það er kannski líka á ótryggasta leigumarkaði í Evrópu og þarf að rífa sig og sína upp á fardögum með nýjum áskorunum. Hjá einmitt þessu fólki þykir ástæða til að barnabæturnar séu skertar ef það dirfist að afla sér tekna sem gætu komið því spölkorn frá heljarþröminni. Nái áform ríkisstjórnarinnar fram að ganga þarf einmitt þetta fólk brátt að borga vegaskatta til að komast milli bæjarhluta og þessir skattar eru ætlaðir til að byggja upp ónýtt vegakerfi.

Virðulegi forseti. Kjaraviðræður hafa farið stirðlega af stað og ber mikið á milli að því er fregnir herma. Stjórnvöld geta haft mikið að segja þar eins og dæmin sanna, en það á enn eftir að koma í ljós hvers er að vænta af núverandi ríkisstjórn sem byrjaði síðasta ár á því að fara í hart við ljósmæður í kjarabaráttu og endaði það án þess að koma neitt til móts við þá hópa í samfélaginu sem hafa verið skildir eftir.

Breytingar á skattkerfinu gætu haft þar mikið að segja, enda búum við hér við tiltölulega lága eignarskatta og fjármagnstekjuskatta en óbeinir skattar leggjast þyngra á fólk með lægri tekjur, að ógleymdum kostnaðinum af krónunni.

Virðulegi forseti. Mig langar að enda þessa ræðu á því að vitna til formanns BSRB, Sonju Ýrar Þorbergsdóttur, sem skrifar í Fréttablaðið í dag. Hún segir, með leyfi forseta:

„Við eigum ekki að hika við að beita skattkerfinu sem jöfnunartæki til að auka hér félagslegan stöðugleika. Við hjá BSRB viljum frekari þrepaskiptingu í tekjuskattskerfinu og að mögulegar skattalækkanir eigi að útfæra þannig að þær komi þeim tekjulægri til góða. Þá er það ekki síður mikilvægt réttlætismál að skattlagning tekna komi eins út fyrir fólk sama hvort tekjurnar heita launatekjur eða fjármagnstekjur.

Eigi launafólk að geta lifað af laununum sínum verður að grípa tafarlaust til aðgerða á húsnæðismarkaði og tryggja ódýrara og hagkvæmara húsnæði um land allt, enda fer hátt hlutfall ráðstöfunartekna launafólks í kostnað við leigu eða kaup á húsnæði.“

Svo mörg voru þau orð og undir þessi orð tökum við jafnaðarmenn heils hugar. Spurningin er hins vegar sú hvort þau séu sama sinnis í hinu liðinu.