149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:23]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að í ýmsu tilliti stöndum við ekki eins framarlega og mörg önnur ríki sem við viljum almennt bera okkur saman við og myndum gjarnan vilja standa jafnfætis þegar kemur að rekstrarumhverfi, kannski sérstaklega minni fyrirtækja eða nýsköpunarfyrirtækja.

Þingmaðurinn nefnir dæmi um atriði sem hægt væri að laga. Ég hef áður heyrt hann nefna hér dæmi sem ég man ekki til þess að hafi sérstaklega verið skoðuð í ráðuneyti mínu. Hugsanlega, svo ég leyfi mér nú að hugsa upphátt í ræðustól, væri gott að setja í farveg slíkar hugmyndir sem eru ekki endilega svo stórar, flóknar eða kostnaðarsamar en skipta samt máli í heildarsamhenginu. Ég þigg almennt góðar hugmyndir, hvaðan sem þær koma, sérstaklega þegar þær gagnast fólki sem býr í þessu landi sem fær góðar hugmyndir og býr til verðmæti.

Síðan erum við auðvitað að vinna að nýsköpunarstefnu. Þar er markmiðið að taka allt umhverfið saman og verða þar unnar ákveðnar tillögur. Þar er reynt að fókusera sérstaklega á þá þætti sem bæta þarf úr til að við komumst upp á næsta pall sem nýsköpunarland. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður sé í stýrihópi í þeirri vinnu. (Gripið fram í.) — Nei?

Eins og ég segi er hægt að gera betur hvað margt þetta varðar. Það er margt sem við gerum vel og það er alveg rétt að við höfum verið að taka ákvarðanir sem skipta verulegu máli fyrir nýsköpunarumhverfið. En það verður ekki allt gert í einu. Kannski er hægt að flokka það, t.d. er tvöföldun þaks á endurgreiðslum mjög stór og þung aðgerð fyrir ríkissjóð og skiptir máli. (Forseti hringir.) Svo eru önnur atriði sem gætu gert gagn, sérstaklega fyrir minni fyrirtæki þar sem tvöföldun á endurgreiðslu skiptir örugglega ekki lykilmáli. En ég þigg allar slíkar ábendingar.