149. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2019.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:57]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Þar sem þetta er fyrsti dagurinn okkar á þessu vorþingi finnst mér við hæfi að segja: Kæru landsmenn og við öll, gleðilegt nýtt ár.

Mig langar pínulítið að líta um öxl. Mig langar að horfa til þess þegar við vorum að fara í jólafríið í vetur, sjá hvernig staðan var þá þegar við vorum búin að leggja fram fjárlögin og þau komin í gegn, sjá hvernig kjarabætur og kaupmáttur skilaði sér til þeirra sem verst eru settir. Kjarabætur til aldraðra og öryrkja, a.m.k. öryrkja, voru núll krónur. Það eina sem þeir fengu var 3,6% leiðrétting sem lögum samkvæmt er skilyrt að framkvæmd sé um hver áramót og vísa ég í lög um almannatryggingar, nr. 100/2007. Í 69. gr. segir — ég kveð hana aldrei nógu oft, ég vona að dropinn holi steininn og einhver hugljómun verði allt í einu hér í þingsal og allir átti sig á því að það sem ég er að segja er stórisannleikur.

Í 69. gr. segir svo, með leyfi forseta:

„Bætur almannatrygginga […] skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni.“

Þess vegna var það sem 3,6% leiðréttingin kom til núna um áramótin, sem skilar sér sennilega í umslagið 1. febrúar, þar sem þetta er greitt mánuð á eftir.

Þar segir líka:

„Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun …“

Ætli það sé svo að þessi 3,6% séu mið af launaþróun, séu í einhverjum takti við launaþróun í landinu? Nei, það er það ekki. En svo kemur hér:

„… þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Það er nákvæmlega það sem hefur verið gert ár eftir ár. Það skiptir engu máli, virðulegi forseti, hver launaþróun hefur verið í landinu, hvort meðallaunaþróun er 7%, 9% eða hvað annað það er. Hér hefur leiðrétting launa eingöngu fylgt vísitölu og engu öðru. Þess vegna er það dapurt í rauninni. En það er ekki öll nótt úti. Ný fjárlög verða næsta haust, er það ekki? Ekki á þessu löggjafarþingi, því miður, en það er enn von.

En ýmsir hlutir voru líka þakkarverðir. Hæstv. heilbrigðisráðherra afnam t.d. komugjöld. Ég á ekki að standa hér og mæra svokallaða pólitíska andstæðinga, en við í Flokki fólksins virðum það sem vel er gert, okkur er nákvæmlega sama hvaðan það kemur. Mér fannst þetta frábært og það nýtist sérstaklega þeim efnaminni og sérstaklega þeim sem þurfa oft að leita á heilsugæslustöðvar. En ég ætla ekki að hæla þeim meira en þetta, virðulegi forseti, þetta er eiginlega kannski gott.

Hins vegar langar mig að líta pínulítið fram á veginn, sjá hver staðan er í dag. Þetta verður gríðarlega umfangsmikið vorþing, myndi ég segja. Það eru ótrúlega mörg og stór verkefni sem bíða þingsins. Við skulum tala um t.d. stöðuna á vinnumarkaði. Við skulum tala um hvernig farið er að hrikta hér í. Það er hreinlega farið að hrikta í öllum stoðum og fólk kallar á réttlæti. Það kallar á að vera ekki skattlagt þegar því er haldið í fátækt.

Mig langar að tala um það sem kom mér verulega á óvart — sem gerðist reyndar 3. desember síðastliðinn, maður ætti kannski ekki að vera þar enn þá — en það er um velferðarráðuneytið. Það lækkaði neysluviðmiðin á milli áranna 2017 og 2018. Mér finnst það algjörlega óskiljanlegt, virðulegi forseti, algerlega nýtt og uppfært neysluviðmið sem unnið var af Rannsóknastofnun Háskóla Íslands og var kynnt á fundi í Stjórnarráðinu þann 3. desember síðastliðinn. Óhætt er að segja að fleirum en mér hafi blöskrað það sem þar var sett fram í alvöru, virðulegi forseti. Verið var að lækka þetta viðmið um hvorki meira né minna en 14,7%, eða um 30.657 kr. Úr 223.046 kr. niður í 192.348 kr. Húsnæðisliðurinn er ekki hér inni. Hér á enginn þak yfir höfuðið og enginn þarf neins staðar að eiga heima. En ég segi: Er það eðlilegt? Getum við ímyndað okkur að hér hafi allt lækkað og þess vegna sé ástæða til að lækka framfærsluviðmiðið og nú sé ástæða til að lækka lágmarksframfærsluna?

Það eru ýmis meðul notuð til að koma sér í þessa útreikninga, en staðreyndin talar sínu máli. Það sem við neytendur þurfum venjulega í neysluna; fæði, klæði, húsnæði og mat á diskinn, var sannarlega ekki það sem lækkaði á milli áranna 2017 og 2018. En það er ekki eins og við höfum ekki meðul. Það er ekki eins og við getum ekki komið með raunhæfar lausnir án þess að þurfa alltaf að taka upp sverðið og skylmast. Við erum jú 63 kjörnir fulltrúar. Ég trúi því alveg í hjartanu að við getum haft þá framtíðarsýn og þau markmið sameiginleg að taka saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum, eins og við gerðum einmitt fyrir jólin þegar við settum lög sameiginlega um að afnema allar skerðingar á t.d. styrki, bensínstyrki og styrki til tækjakaupa og ákveðna styrki sem áður höfðu verið bæði skattaðir og skertu síðan bætur til þeirra sem þáðu bætur frá almannatryggingum. Við gerðum þetta saman, hver einasti þingmaður. Okkur fannst það réttlátt, sanngjarnt, og mér fannst það frábært. Fólk er vissulega enn að spyrja: Hvað gerðist? Gerðist ekki neitt? Jú, það kemur til framkvæmda 1. febrúar, eins og með annað sem lýtur að almannatryggingakerfinu. Ef lögin taka gildi 1. janúar verða þau ekki sýnileg fyrr en 1. febrúar fyrir þá sem njóta.

En mig langar að segja ykkur frá þeirri frábæru lausn til að bæta lífskjör almennings og í raun og veru um leið slökkva þá rosalegu elda sem virðast vera að kvikna allt í kringum okkur á launamarkaðnum. Ég held að við getum öll verið sammála um það, virðulegi forseti, að fyrsta skrefið er að hætta að skatta og skerða fátækt, það er fyrsta skrefið. Annað skrefið er að horfa á það sem Flokkur fólksins hefur verið að leggja fram í vetur, því að hvert einasta frumvarp sem við höfum lagt fram lýtur að því að bæta kjör þeirra sem höllustum fæti standa. Og hér stend ég, formaður Flokks fólksins, og segi: Gjörið svo vel. Frumvarpið okkar um 300.000 kr. lágmarksframfærslu, skatta- og skerðingarlaust. Gjörið svo vel. Frumvarpið sem við höfum unnið í sambandi við verðtryggingu til dæmis, og þó að væri ekki nema að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu sem hefur kostað heimili og fyrirtæki í landinu síðustu fimm árin 118 milljarða kr., þið megið bara eiga þetta. Við þurfum ekki að gera neitt með þetta, ekki nema vita það í hjartanu að við komum því í framkvæmd, ekki nema vita það að við unnum greinargerðir og við erum tilbúin að deila þessu með ykkur. Takið bara utan um þetta. Gerum þetta. Hættum þessu.

Eigum við að bíða? Eigum við að bíða eftir því að hér verði allt logandi í verkföllum, sjö eða átta vikur, átta eða tíu vikur, eða hvað eina sem það er? Hvers vegna getum við ekki verið með forvarnir og keyrt á þetta og gert þetta hér og nú og bara strax.

Mig langar að eiga frábært þing þar sem við getum tekið fyrir öll þessi stóru og mikilvægu mál sem við þurfum að leysa af hendi. Ég held að kjaramálin og kjarabarátta láglaunafólksins sé það sem stendur langsterkast upp úr akkúrat núna, burt séð frá samgönguáætlun og öllu öðru mikilvægu. Við verðum að byrja þarna. Það er mín skoðun og trú.

Virðulegi forseti. Ég segi ekki annað en að ég hef fulla trú á Alþingi og ég vil meina að við eigum að geta staðið saman, tekið saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum og gert þetta ærlega og almennilega. Ef við í Flokki fólksins getum hjálpað til erum við tilbúin að gera hvað sem er fyrir fátæka fólkið.