149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

afbrigði.

[14:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Nú hefur forseti lýst hreint dæmalausum áformum sínum í þeim vandræðagangi sem hann sjálfur hefur sett þetta þing í með málsmeðferð sinni frá upphafi. Fyrir áramót lýsti forseti því yfir í skriflegri yfirlýsingu að hann hygðist láta breyta lögum og beita þeim svo afturvirkt til að ná ákveðinni niðurstöðu. Einhver hefur sagt honum að það gengi ekki upp og þá kynnir hann aðra leið sem gengur heldur engan veginn upp og er hreint út sagt fráleit, nánast fyndin ef hún væri ekki sorgleg vegna þess að hún varðar heiður þingsins. Hún varðar það að þingið sýni að það sé fært um að fylgja lögum sem það setur. Hann ætlast til þess að litið sé fram hjá lögum um þingsköp og beitt ákvæði sem er til þess ætlað að flýta fyrir framgangi mála til að hópur 57 eða 60 vanhæfra þingmanna geti valið tvo þingmenn sem forseti hefur handvalið (Forseti hringir.) til að skila þeirri niðurstöðu sem forseti er búinn að mæla fyrir um að þeir eigi að skila.

Þetta, virðulegur forseti, er svartur blettur á störfum Alþingis.