149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

afbrigði.

[14:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Það liggur fyrir að það mál sem forseti boðar hér er ekki í samræmi við lög. En þá vill forseti líta fram hjá lögunum, fá undanþágu frá þeim. (Gripið fram í.) Hann vill að Alþingi veiti sér undanþágu frá lögunum svo hann geti haldið áfram með hið vonlausa mál sitt. Gallinn er bara sá að sú aðferð sem forseti leggur upp með er heldur ekki lögleg. Hún stenst ekki lög. Hún stenst raunar ekki stjórnarskrá.

Þetta veit forseti. Honum hefur verið gerð grein fyrir þessu með erindum, nú síðast erindi sem barst forseta í morgun þar sem farið var yfir lagalega hlið málsins. Mörgum þessara erinda hefur forseti ekki svarað, öðrum virðist hann ætla að líta fram hjá, enda hefur forsetinn sýnt það nú, og því miður áður, að allt annað skal víkja; sanngirni, réttur, jafnvel lög, svo hann nái þeirri niðurstöðu sem hann mælir fyrir um.

Ég ítreka þá beiðni sem fram kom áðan um að forseti geri hlé á þessum þingfundi (Forseti hringir.) svoleiðis að formenn flokka geti hist og rætt málin áður en forseti leiðir þessa óværu yfir Alþingi Íslendinga.