149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og hægt er að taka undir margt sem hann kom inn á. En það er eitt sem hann gerði það ekki, hann svaraði ekki hvaða umræða hefði átt sér stað um þennan samning innan ríkisstjórnarinnar, hvort ráðherra, til að mynda ráðherrar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, hafi komið og sett fram einhverjar athugasemdir eða umræðu. Ég er að kalla eftir því að þingið verði upplýst um hvaða vangaveltur voru uppi af hálfu ráðherra ríkisstjórnarinnar í þessu efni.

Ég er sannfærð um að því meiri samskipti sem við höfum við umheiminn og þjóðir hafa sín á milli mun á endanum fegurðin, lýðræðið og frelsið vinna. En það verður að segjast eins og er að í sumum efnum og sérstaklega gagnvart ákveðnum þjóðum miðar ansi hægt. Það eru þær vangaveltur mínar sem ég set hér fram, hvort við höfum í rauninni sett fram einhverja skoðun eða rannsókn á því hvort sú afstaða að semja við Filippseyjar, gera fríverslunarsamning við Filippseyjar, Tyrkland eða Sádí-Arabíu hafi upp á heildina, til lengri tíma litið, skilað einhverju í því að minna verði um mannréttindabrot og meiri meðvitund um gildi lýðræðis, jafnréttis og frelsis.

Í fylgiskjali með samningnum árétta samningsaðilar skuldbindingu sína að styðja við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við þjóðarétt og sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingarinnar. Getum við treyst því að Tyrkir fari þá eftir þessu? Verða einhverjir eftirmálar af hálfu Íslands ef við upplifum það enn og aftur að þeir fari ekki eftir þessu? Höfum við sett okkur einhver takmörk um það? Eftir eitt ár, tvö ár? Ef engar breytingar verða í þá veru, í átt að auknum mannréttindum, hvaða stöðu ætlum við þá að taka? Ætlum við að láta þetta ákvæði vera einhvers virði? Á að vera eitthvert innihald í þessu ákvæði? (Forseti hringir.) Eða ætlum við bara að halda áfram að skauta fram hjá svona ákvæðum sem eru vel meinandi en gera síðan ekkert með þau?