149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

meðferð einkamála og meðferð sakamála.

496. mál
[12:41]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og fyrir að vekja athygli á áhugaverðu máli sem er hægt að ræða út frá ýmsum sjónarhornum.

Ég veitti því athygli sem hv. þingmaður nefndi, að gera þyrfti verulega bragabót á heimasíðum sýslumanna, og ég tek undir að það þurfa að vera einhverjar upplýsingar á ensku yfir helstu málaflokka og þjónustu sem sýslumenn veita. Mest um vert tel ég þó, eins og hefur verið gert í áranna rás og í auknum mæli síðustu ár, að þýða löggjöf sem getur varðað útlendinga einhverju máli. Ég tek sem dæmi að nýlega fékk ég í hendur nýja löggjöf um útlendinga úr þýðingu. Það var mikið beðið eftir henni og ég skil það vel. Það er hins vegar ekki einfalt mál að þýða löggjöf sem þessa. Þótt hinn íslenski texti gildi þarf að vanda mjög til verka í því og það eru ekki margir kunnáttumenn í þeim efnum sem geta þýtt löggjöf, ekki einu sinni á ensku, svo að traustvekjandi sé. En við leggjum auðvitað á það áherslu, og ég held að öll ráðuneyti geri það, að þýða í það minnsta einhvers konar útdrátt úr löggjöf, þótt öll löggjöfin sé ekki þýdd frá orði til orðs eða allar lagagreinar, en a.m.k. það sem mestu máli skiptir. Það er kallað mikið eftir því frá lögmönnum t.d. sem aðstoða útlendinga. Gera þarf mikla bragarbót á því hjá mörgum stofnunum ríkisins og sveitarfélaga líka.

Við búum hins vegar svo vel á Íslandi, umfram önnur lönd, mörg hver, að það má segja að hver einasta stofnun hafi yfir þeim mannauði að ráða að almennir starfsmenn geta í það minnst tjáð sig á ensku og mjög víða einnig á norrænum tungumálum. Þetta þarf líka að hafa í huga.