149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

136. mál
[14:44]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni andsvarið. Ég fagna því og kannski kemur ekki á óvart að formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar sé þegar farinn að huga að þeirri faglegu umfjöllun sem þarf að eiga sér stað. Ég kom inn á það í ræðu minni að frumvarp hefur lengi verið í undirbúningi en ekki hefur náðst að klára skilgreiningu á félagastarfsemi til almannaheilla almennt. Starfsemi íþróttafélaga er að fullu skilgreind gagnvart skattinum þannig að það er einfaldara að fara þangað inn. En ég hygg að ef gildissviðið á að vera það sem lagt er til í frumvarpinu, sem er í raun og veru jákvætt — bara viðbrögð við umfjöllun um málið árin á undan og eðlilegur framgangur í málinu — þurfum við að horfa til þessarar skilgreiningar gagnvart skattinum, í það minnsta. Ég geri ráð fyrir því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd muni skoða það. Það er auðvitað oft skynsamlegt að fara hægar af stað, sjá út frá því hvaða leið verður valin, hvort sem það er leiðin hér eða ekki.

Annað sem kom fram í máli hv. framsögumanns er gildistíminn. Nú hafa skapast ákveðnar væntingar. Þegar við höfum lagt þetta mál fram í þinginu hafa skapast ákveðnar væntingar og framkvæmdir fara af stað víða þannig að þetta þarf allt saman að skoða.

Ég vil ítreka í lokin, virðulegi forseti, að mér finnst (Forseti hringir.) það speglast mjög sterkt hver viljinn er í þessu máli. Vonandi náum við lengra með málið nú en fyrr.